Innlent

Sakamálarannsókn hafin á starfsemi PwC

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Tvö erlend ráðgjafarfyrirtæki og slitastjórnir bæði Landsbankans og Glitnis telja vinnubrögð PwC á Íslandi óásættanleg. Nú hefur sérstakur saksóknari hafið sakamálarannsókn á fyrirtækinu.
Tvö erlend ráðgjafarfyrirtæki og slitastjórnir bæði Landsbankans og Glitnis telja vinnubrögð PwC á Íslandi óásættanleg. Nú hefur sérstakur saksóknari hafið sakamálarannsókn á fyrirtækinu.

Embætti sérstaks saksóknara hefur hafið sakamálarannsókn á störfum endurskoðunarfyrirtækisins PricewaterhouseCoopers á Íslandi og er rannsóknin á frumstigi. Hart er nú sótt að fyrirtækinu á mörgum vígstöðvum en stjórnendur þess hafna ásökunum um vanrækslu.

Endurskoðunarfyrirtækið PriceWaterouseCoopers á Íslandi í vök að verjast á mörgum vígstöðvum. Slitastjórn Glitnis hefur höfðað mál gegn félaginu í New York og vill milljarða í skaðabætur. Þá telur slitastjórn Landsbankans að fyrirtækið hafi vanrækt skyldur sínar við endurskoðun ársreikninga bankans. Þá telja tvö erlend fyrirtæki, hið norska Lynx og hið franska Cofisys að vinnubrögð fyrirtækisins hafi verið óásættanleg við endurskoðun á ársreikningum Landsbankans og Glitnis.

Og nú hefur embætti sérstaks saksóknara bæst við, því samkvæmt heimildum fréttastofu hefur embættið nú hafið opinbera rannsókn á störfum PwC á Íslandi. Meðal þess sem er verið að kanna eru grunsemdir um brot á lögum um endurskoðendur og lögum um ársreikninga og lögum um bókhald. Hinn 1. október á síðasta ári framkvæmdi embættið húsleit hjá PwC og lét síðan fyrirtækin tvö, franska fyrirtækið Cofisys og Lynx Advokatfirma frá Noregi, vinna skýrslur á grundvelli þeirra gagna sem þar var aflað. Fyrirtækin skiluðu síðan niðurstöðum sínum í síðasta mánuði.



Brot geta varðað allt að tveggja ára fangelsi


Samkvæmt lögum um endurskoðendur ber endurskoðandi ábyrgð á tjóni sem hann eða starfsmenn hans valda í störfum sínum, af ásetningi eða gáleysi. Brot gegn lögum um endurskoðendur geta varðað sektum, niðurfellingu réttinda eða fangelsi allt að tveimur árum.

Reynir Vignir, framkvæmdastjóri hjá PwC, segir að fyrirtækið muni svara þeim ásökunum sem koma fram í erlendu skýrslunum á réttum vettvangi. „Þetta eru mjög alvarlegar ásakanir sem þarna koma fram og við teljum að við þurfum að bera þetta saman við okkar vinnugögn áður en við getum svarað þessu lið fyrir lið og þá á þeim vettvangi sem við þurfum að svara þessu á," segir Reynir. Rannsókn sérstaks saksóknara er skammt á veg komin samkvæmt upplýsingum fréttastofu, enda fékk embættið erlendu skýrslurnar tvær afhentar fyrir aðeins rúmum mánuði. „Við höfum ekki verið kallaðir til neinnar skýrslutöku, eða það starfsfólk sem vann að endurskoðun bankanna. Þannig að þeirra viðhorf hefur hvergi komið fram ennþá í gögnum saksóknara," segir Reynir Vignir






Tengdar fréttir

Hvetur saksóknara til þess að rannsaka endurskoðendur

Formaður viðskiptanefndar Alþingis, Lilja Mósesdóttir, hvetur sérstakan saksóknara til þess að kanna hvort það sé grundvöllur til sakamálarannsóknar á endurskoðendafyrirtækisins PricewaterhouseCoopers (PwC), vegna starfa þeirra fyrir Glitni og Landsbankans fyrir hrun 2008.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×