Viðskipti innlent

Yfirlýsing PwC „játning“ um að endurskoðendur hafi brugðist

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Slitastjórn Landsbankans. Þau telja að PwC hafi brugðist við endurskoðun ársreikning Landsbankans.
Slitastjórn Landsbankans. Þau telja að PwC hafi brugðist við endurskoðun ársreikning Landsbankans.

PricewaterhouseCoopers, endurskoðendur Landsbankans, telja sig ekki hafa getað gerst segir um vanrækslu við endurskoðun ársreikninga því þeir hafi ekki haft gögn. Lektor í viðskiptafræði segir þetta ekki standast skoðun því endurskoðendur geti auðveldlega kallað eftir gögnum.

Slitastjórn Landsbankans telur að PricewaterhouseCoopers beri ábyrgð á röngum og villandi ársreikningum bankans fyrir árið 2007 og árshlutauppgjörum ársins 2008. Þannig hafi reglum um stórar áhættur ekki verið fylgt og eigið fé sennilega verið langt undir löglegum mörkum löngu fyrir hrun. Í yfirlýsingu frá PricwaterhouseCoopers sem fyrirtækið sendi í gærkvöldi segir að hlutverk þeirra hafi verið að láta í té álit á ársreikningum og hafa skoðun á því hvort reikningsskilin væru í samræmi við lög og reglur. Niðurstöðurnar hafi tekið mið af þeim upplýsingum sem þeir höfðu aðgang að á þeim tíma sem endurskoðun fór fram.

„Góð játning í erfiðu máli"

Vilhjálmur Bjarnason, lektor í viðskiptafræði, segir þessar skýringar ekki standast skoðun. „Þetta er fyrst of fremst staðfesting á því endurskoðendurnir hafi ekki fylgt þeirri rannsóknarskyldu sem þeim ber að fylgja. Fjármálafyrirtæki starfa eftir ýmis konar löggjöf, fyrst og fremst lögum um fjármálafyrirtæki og hlutafélalögum. Í hlutafélagalögum er gert ráð fyrir miklum eftirlitsskyldum endurskoðenda og í lögum um fjármálafyrirtæki er marghamrað á áhættuþáttum í rekstri fjármálafyrirtækja. Að þessu samanlögðu eru miklar skyldur á endurskoðendum að fylgjast með þeim þáttum sem varða áhættu, þ.á.m stórum áhættuskuldbindingum og tengdum aðilum. Þetta hvort tveggja viðurkennir Pricewaterhouse að fyrirtækið hafi ekki fylgt, lögum samkvæmt. Þetta er því góð játning í jafn erfiðu máli og staðfestir það sem ég hef haldið fram að endurskoðendur hafi brugðist skyldum sínum í hruninu," segir Vilhjálmur.


Tengdar fréttir

Telja að bankinn hafi blekkt með ársreikningum

Slitastjórn Landsbankans telur að bankinn hafi veitt rangar upplýsingar í ársreikningum árið 2007 og ætlar að krefjast bóta frá endurskoðendum af þeim sökum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×