Innlent

Sturla er kominn heim

Erla Hlynsdóttir skrifar
Sturla Jónsson, vörubílstjóri og mótmælandi, er fluttur aftur heim frá Noregi. „Ég var í flísalögnum þarna úti og hafði bara ekki skrokk í að liggja á hnjánum í tólf tíma á dag. Ég hugsaði því með mér hvort ég vildi kála mér strax eða flytja aftur heim," segir hann.

Sturla vakti mikla athygli í mótmælum vörubílstjóra og síðar í búsáhaldabyltingunni. Hann bauð sig einnig fram til Alþingis fyrir hönd Frjálslynda flokksins en flokkurinn þurrkaðist út á þingi í þeim sömu kosningum.

Sem kunnugt er þá fluttist Sturla til Noregs á síðasta ári og var fylgst með undirbúningnum að flutningnum í myndinni „Guð blessi Ísland."

Til stóð að eiginkona Sturlu og synir hans myndu fylgja á eftir en þau ákváðu síðan að búa á Íslandi þar til drengirnir hefðu klárað grunnskólann.

Um tveir mánuðir eru síðan Sturla flutti aftur heim. Hann er án atvinnu en hefur boðið sig fram til stjórnlagaþings.

„Ég er að reyna að finna mig aftur. Það væri fínt að fá borgað fyrir að sitja á stjórnlagaþingi," segir hann.

Sturla fær ekki atvinnuleysisbætur og segist ekki vilja þiggja þær. „Ég hef alla tíð unnið fyrir mér. Ég vil því geyma það í lengstu lög. Ég bíð bara eftir byltingunni. Hér eru langar biðraðir af fólki sem bíður eftir mat. Þetta gengur ekki svona lengi. Það verður bylting," segir hann.

Kona Sturlu er einnig atvinnulaus og segir hann fjölskylduna lifa á atvinnuleysisbótunum hennar. „Þetta er streð," segir hann.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×