Lífið

Vaktargengið hefur vinnu að nýjum þáttum án Jóns Gnarr

Atli Fannar Bjarkason skrifar
Viðtökur Nætur-, Dag- og Fangavaktarinnar eiga sér ekki hliðstæðu á Íslandi. Þættirnir fengu gríðarlega mikið áhorf og seldust einnig vel á DVD. Þá sló lokahnykkurinn, kvikmyndin Bjarnfreðarson, í                                gegn í kvikmyndahúsum.                                Borgarstjórinn Jón Gnarr                                 verður ekki  með í nýju                                 þáttunum en Ragnar,                                  Jörundur, Ævar og Pétur                              Jóhann vilja fá Halldór                             Gylfason í stórt hlutverk.
Viðtökur Nætur-, Dag- og Fangavaktarinnar eiga sér ekki hliðstæðu á Íslandi. Þættirnir fengu gríðarlega mikið áhorf og seldust einnig vel á DVD. Þá sló lokahnykkurinn, kvikmyndin Bjarnfreðarson, í gegn í kvikmyndahúsum. Borgarstjórinn Jón Gnarr verður ekki með í nýju þáttunum en Ragnar, Jörundur, Ævar og Pétur Jóhann vilja fá Halldór Gylfason í stórt hlutverk. Fréttablaðið/Anton

„Við Jörundur og Ævar erum byrjaðir á sjónvarpsseríu sem á að taka upp í vor. Hún heitir Heimsendir, hvorki meira né minna," segir Ragnar Bragason leikstjóri.

Eins og fram hefur komið í Fréttablaðinu stóð til að fimmenningarnir á bak við Nætur-, Dag- og Fangavaktina myndu hefja vinnu að nýrri þáttaröð nú í haust. Þegar Jón Gnarr var kjörinn borgarstjóri varð ljóst að hann yrði ekki með í þessari vinnu, sem er nú hafin án hans. Ragnar, Jörundur Ragnarsson og Ævar Grímsson hófust handa fyrir þremur vikum og Pétur Jóhann Sigfússon er svo væntanlegur eftir tvær vikur þegar tökum á þáttaröðinni Hlemmavídeó lýkur.

„Heimsendir er míkrókosmos af íslensku samfélagi," segir Ragnar spekingslega. „Þættirnir gerast á fjársveltri geðdeild úti á landi. Þetta er byltingarsaga, þegar sjúklingarnir taka yfir hælið. Þetta er smækkuð mynd af því sem við erum að ganga í gegnum í dag."

Pétur Jóhann og Jörundur verða í aðalhlutverki í þáttunum og samkvæmt Ragnari er Halldór Gylfason efstur á óskalistanum fyrir þriðja aðalhlutverkið. Ef það gengur eftir er ljóst að Halldór þarf að fylla gríðarlega stórt skarðið sem Jón Gnarr skilur eftir. „Það kemur nýr rauðhaus í staðinn fyrir Jón," grínast Ragnar.

Hugmyndin að þáttunum kom upp þegar framleiðsla á Fangavaktinni og kvikmyndinni Bjarnfreðarson stóð yfir. Ragnar segir verkefnið stórt og að mjög stór hópur leikara komi að því - allt að 30 stykki. Þættirnir verða teknir upp í vor og verða á haustdagskrá Stöðvar 2. En verða þetta grínþættir?

„Við dönsum á þessari línu milli húmors og alvöru, eins og við höfum verið að gera," segir Ragnar. „Þetta eru náttúrulega háalvarlegar aðstæður, þessi heimur geðsjúkra. Svo er það sem kemur upp náttúrulega kómískt í sjálfu sér."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×