Innlent

Allir nema sjálfstæðismenn ræddu skuldavandann

Heimir Már Pétursson skrifar
Þór Saari mætti fyrir hönd Hreyfingarinnar. Allir flokkar áttu fulltrúa á fundinum nema Sjálfstæðisflokkurinn
Þór Saari mætti fyrir hönd Hreyfingarinnar. Allir flokkar áttu fulltrúa á fundinum nema Sjálfstæðisflokkurinn Mynd: Vilhelm Gunnarsson
Nefnd fimm ráðherra og fulltrúa stjórnarandstöðunnar funduðu í forsætisráðuneytinu í morgun um mögulegar aðgerðir til að létta á skuldavanda heimilanna. Sjálfstæðisflokkurinn var eini flokkurinn sem ekki átti fulltrúa á fundinum.

Þór Saari mætti á fundinn í morgun fyrir hönd Hreyfingarinnar og Sigurður Ingi Jóhannsson þingmaður Framsóknarflokksins mætti fyrir hönd Framsóknarflokksins. Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst því yfir að flokkurinn muni ekki taka þátt í fundunum. Á Alþingi í morgun sagði Bjarni að það hafi ekki staðið á þingmönnum flokksins né öðrum þingmönnum stjórnarandstöðuflokkanna að standa að lausnum einstakra mála með stjórnarflokkunum í þinginu.

Að mati Bjarna getur ríkisstjórnin ekki laðað fjárfestingu til landsins og sé fyrirmunað að koma fram með lausnir á málum heimilanna. Hann sagði ríkisstjórnina sjálfa vera aðalvandamálið og landið væri stjórnlaust.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra harmaði í gær ef stjórnarandstaðan ætlaði ekki að taka þátt í störfum ráðherranefndarinnar.

Stefnt er að því að nefndin, sem skipuð er forsætis-, fjármála-, dóms-, félags- og viðskiptaráðherra ásamt fulltrúum stjórnarandstöðunnar, fundi á hverjum degi þar til niðurstaða er fengin.

Fulltrúar Hagsmunasamtaka heimilanna funduðu með ráðherrunum í gær og voru bjartsýnir að fundi loknum. Stefnt er að því að nefndin fundi með talsmönnum viðskiptabankanna og lífeyrissjóðanna eftir helgi, um möguleika á lækkun höfuðstóls húsnæðisskulda heimilanna, um allt að 18 prósent eins og Hagsmunasamtökin fara fram á.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×