Afleysingar á áhrifasvæði eldgossins í Eyjafjallajökli hefjast í dag. Tveir menn á vegum Búnaðarsambands Suðurlands, Bændasamtaka Íslands og Félags kúabænda á Suðurlandi munu ferðast milli bæja á svæðinu og leysa bændur af í tvo til sjö daga í senn og ganga í þau verk sem til falla.
„Hugsunin er sú að bændur geti komist í frí,“ segir Sveinn Sigmundsson, framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Suðurlands. „Það er búið að vera mikið álag á fólki og svo er náttúrulega ennþá ryk á svæðinu. Þess vegna er líklega kærkomið fyrir bændur að komast í burtu.“
Sveinn segir að afleysingaþjónustan sé meðal annars fjármögnuð með styrktarfé sem norskir bændur í systursamtökum Búnaðarsambandsins hafi aflað.
Afleysingaþjónustan hefur mælst vel fyrir hjá bændum. Byrjað verður á bæjunum Hrútafelli og Þorvaldseyri. „Okkur finnst þetta frábært,“ segir Guðný Valberg bóndi á Þorvaldseyri. Guðný og maður hennar, Ólafur Eggertsson, verða áfram á Þorvaldseyri en segja afleysingaþjónustuna kærkomna hjálp. „Við ætlum samt að sinna bústörfunum áfram.“- mmf
