Innlent

Síminn býður viðskiptavinum að hringja frítt til útlanda

Síminn ætlar að bjóða viðskiptavinum sínum sem eiga heimasíma að hringja án endurgjalds í vini og kunningja í útlöndum á laugardag og sunnudag. Þetta gerir Síminn til að vekja athygli á átakinu „Inspired by Iceland" sem er markaðsátak íslenskra stjórnvalda og ferðaþjónustunnar á erlendum mörkuðum.

Ekki skiptir máli fyrir viðskiptavini Símans hvort hringt er í farsíma eða heimasíma erlendis, símtalið kostar ekkert.

Í tilkynningu frá Símanum segir meðal annars: „Stjórnvöld og ferðaþjónustan hafa hrint af stað þjóðarátaki þar sem þjóðin er hvött til þess að senda myndband um allan heim og vill Síminn styðja við þetta spennandi átak með því að hvetja viðskiptavini sína til þess að hringja án endurgjalds í alla sem þeir þekkja í útlöndum. Þannig geta þeir vakið athygli á átakinu, sagt frá hinu frábæra myndbandi sem sýnir Ísland í sinni bestu mynd og hvatt fólk til þess að sækja landið heim. "

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans segir að með þessu vilji Síminn leggja sitt af mörkum til þess að átakið beri árangur „og að sem flestir Íslendingar geti tekið þátt í að koma skilaboðunum á framfæri enda þörfin mikil nú þegar eldgosið hefur valdið fækkun ferðamanna til landsins. Ég ætla sjálfur að koma mér vel fyrir heima um helgina og hringja í alla þá sem ég þekki í útlöndum og segja þeim að nú sé rétti tíminn til að heimsækja Ísland."







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×