Erlent

Er þetta innan úr Örkinni hans Nóa?

Óli Tynes skrifar
Leiðangursmenn segja þessa mynd tekna inni í Örkinni.
Leiðangursmenn segja þessa mynd tekna inni í Örkinni.

Fornleifafræðingar í leiðangri evangelista frá Kína og Tyrklandi telja sig hafa fundið flakið af Örkinni hans Nóa í tólfþúsund feta hæð á fjallinu Ararat.

Ararat er í Tyrklandi og þar segir sagan að Örkin hafi strandað þegar syndaflóðið sjatnaði.

Leiðangursmenn segja að Örkin sé ótrúlega heilleg og þeir hafi komist inn í hana. Hún sé hólfuð niður og í nokkrum hólfum hafi þeir fundið leifar af köðlum sem þeir telja að hafi verið notaðir til þess að tjóðra dýrin.

Aldurinn sagður passa

Leiðangursmenn segja að trésýni og kaðlarnir hafi verið aldursgreindir.

Þeir hafi reynst vera um 4.800 ára gamlir. Það stemmir við þann tíma sem sagan segir að syndaflóðið hafi átt sér stað.

Leiðangursmenn hafa verið spurðir að því hvort þeir hafi ekki getað rambað á forna byggð á fjallinu.

Þeir telja það af og frá þar sem aldrei hafi fundist slík byggðarlög í svona mikilli hæð.

Þessi leiðangur er sá fyrsti sem hefur notið leyfis og stuðnings tyrkneskra stjórnvalda við leit að Örkinni en margir óopinberir leiðangrar hafa gengið á Ararat undanfarna áratugi.

Á Heimsminjaskrá UNESCO

Á blaðamannafundi þar sem tilkynnt var um fundinn voru tyrkneskir embættismenn viðstaddir.

Leiðangursmenn vilja ekki gefa upp nákvæma staðsetningu fyrr en tyrknesk yfirvöld hafa lýst staðinn  þjóðminjasvæði til þess vernda hann.

Sveitarstjórnarmenn á svæðinu munu senda tyrkneskum yfirvöldum í Ankara erindi þar sem farið er framá að þau biðji um að staðurinn verði tekinn á Heimsminjaskrá UNESCO.

Það er  fyrsta skrefið í umfangsmiklum uppgreftri alþjóðlegrar sveitar fornleifafræðinga.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×