Innlent

Allir þingmenn frá 2008 kunni að víkja

Uppgjör Steinunnar Valdísar Steinunn skilaði skattstjóra bókhaldi sínu árið 2007 „sem þótt mjög skrítið á þeim tíma“. Hún telur að fleiri frambjóðendur en hún mættu opna bókhald sitt. Mynd/rósa
Uppgjör Steinunnar Valdísar Steinunn skilaði skattstjóra bókhaldi sínu árið 2007 „sem þótt mjög skrítið á þeim tíma“. Hún telur að fleiri frambjóðendur en hún mættu opna bókhald sitt. Mynd/rósa

Innan Samfylkingarinnar hefur þess verið krafist að allir þeir sem sátu á Alþingi fram að hruni 2008 segi af sér. Ekki er óhugsandi að þetta sé réttmæt krafa og nauðsynlegt sé að verða við henni. Svo segir Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.

„Ef störf umbótanefndarinnar leiða til þeirrar niðurstöðu að menn hafi brugðist á þessum tíma, þá hljóta allir að fara," segir hún og vísar til nýskipaðrar sextán manna nefndar, sem er meðal annarra stýrt af Jóni Ólafssyni heimspekingi. Nefndin á að „leiða skoðun og umræðu um störf, stefnu, innri starfshætti og ábyrgð Samfylkingarinnar í aðdraganda bankahrunsins".

Steinunn bendir á það að Samfylkingin þurfi að horfast í augu við fortíð sína og þær ákvarðanir sem teknar voru. „Samfylkingin sem flokkur ákvað að standa fyrir galopnum prófkjörum 2006 og var sem flokkur afskaplega ánægð með hversu mikið var auglýst í þeim, því það auglýsti flokkinn um leið. Það er þessi sameiginlega ábyrgð flokksins sem ég er að kalla eftir," segir Steinunn Valdís. Sjálf hafi hún alltaf verið andsnúin opnum prófkjörum, enda séu þau ekki holl stjórnmálasamtökum.

Steinunn hefur sjálf verið gagnrýnd fyrir að hafa safnað miklu fé í prófkjörsbaráttu sinni árið 2006 og fólk hefur safnast saman við heimili hennar til að krefjast þess að hún segi af sér.

„Ég hef ekkert að fela. Ég skilaði þessu bókhaldi árið 2007 á minni eigin kennitölu til skattsins, sem þótti mjög skrítið á þeim tíma. Ég skilaði öllum fylgiskjölunum og skatturinn fór yfir hverja einustu kvittun án athugasemda. Nú er svo komið að fólk telur sig þess umkomið að tala um mútugreiðslur, að ég hafi stungið þessum peningum í eigin vasa," segir Steinunn Valdís. Henni þætti rétt að fleiri frambjóðendur opnuðu bókhald sitt.

- kóþ







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×