Innlent

Veit ekki hvað varð um lúxussnekkjuna Maríu

SB skrifar
Magnús Guðmundsson, forstjóri Banque Havilland í Lúxemborg
Magnús Guðmundsson, forstjóri Banque Havilland í Lúxemborg

Magnús Guðmundsson, forstjóri Banque Havilland í Lúxemborg, segist ekkert vita um afdrif lúxussnekkjunnar Maríu sem fjallað er um í tölvupóstum í Rannsóknarskýrslu Alþingis. Hann segist óhræddur við efni skýrslunnar - staðreyndir tali sínu máli.

"Nei, ég hef ekki lesið skýrsluna eða séð hana," sagði Magnús í samtali við blaðamann Vísis. Magnús býr Lúxemborg og sagði veðrið gott.

Vísir fjallaði í gær um tölvupóst sem Magnús sendi í febrúar 2008 vegna lúxussnekkjunnar Maríu. Pósturinn var stílaður á þá Ágúst og Lýð Guðmundssyni, Hreiðar Má Sigurðsson, Steingrím Kárason, Ármann Þorvaldsson og Sigurð Einarsson.

„Tökum stöðuna í haust, ef við erum ríkir við getum haldið áfram, ef við erum enn fátækir seljum við dallinn [...] Mér líður best persónuleg og vinnulega með að segja að við leigjum dallinn en eigum hann ekki, enda kemur engum það við, en þið vitið hvað fólk talar mikið," segir meðal annars í pósti Magnúsar.

Spurður hvað varð um snekkjuna svaraði Magnús stuttaralega. "Ég hef ekki hugmynd um það." Hann sagði ekkert óeðlilegt við stórútgerð útrásarvíkinganna. "Menn nota sína peninga eins og þeir vilja... ég meina, í hvað notar þú þína peninga..." spurði hann svo blaðamann á móti.

Magnús býr í Lúxemborg og þrátt fyrir að vera hluti af leikhóp hrunsins segist hann ekki óttast skýrsluna eða það sem þar kemur fram.

"Nei, þú ert sá fyrsti sem hringir út af þessu."

Spurður að lokum hvað honum þætti um viðskiptahættir íslensku bankanna árin fyrir hrun sagði Magnús:

"Ég hef mínar eigin skoðanir á því sem ég deili ekki með þér."











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×