Innlent

Kaninn tekinn úr sambandi - sakar Lýðvarpið um árás á útvarpssendi

Einar Bárðason segir að forsvarmenn lýðvarpsins hafi tekið Kanann úr sambandi
Einar Bárðason segir að forsvarmenn lýðvarpsins hafi tekið Kanann úr sambandi

„Ég áttaði mig á því stuttu eftir hádegi að sendir á okkar vegum í Bláfjöllum var dottinn út," segir Einar Bárðarson, útvarpsstjóri Kanans, en óprúttnir aðilar virðast hafa brotist inn í hús þar sem sendirinn er og tekið hann úr sambandi með þeim afleiðingum að útsending útvarpsstöðvarinnar þagnaði.

„Þegar ég grennslaðist fyrir um málið komst ég að því að fulltrúar frá Lýðvarpinu, þar á meðal Ástþór Magnússon, fóru að sendinum í Bláfjöllum og slökktu á honum," segir Einar en Kaninn sendir út á tveimur bylgjulengdum. Önnur þeirra er sú sama og Lýðvarpið var með. Kananum var úthlutað tíðnin af Póst- og fjarskiptastofnun þegar Lýðvarpið hætti.

„Ef þetta reynist allt saman rétt þá verður þetta að sjálfsögðu kært til lögreglunnar," segir Einar sem er steinhissa á stöðu mála en sjálfur var hann á leiðinni að sendinum til þess að kanna aðstæður þegar blaðamaður ræddi við hann.

Hann segir sína menn afar ósátta við þessar sérkennilegu aðgerðir og bendir á að ef einhverskonar ósætti hafi verið um að ræða, en sjálfum var honum ekki kunnugt um slíkt, þá hefði mönnum verið í lófa lagið að hafa samband við sig.

„Ég hef til að mynda átt í góðum samskiptum við Ástþór í gegnum tíðina," segir Einar og bætir við: „Það er kannski dálítið kaldhæðnislegt í ljósi þessara atburða að samskiptin voru einmitt í lagi."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×