Innlent

E.C.A. býður upp á gosflug í herflugvélum

Eldgosið Þeir sem nýta sér boð E.C.A. eiga mikið sjónarspil í vændum.
Fréttablaðið/vilhelm
Eldgosið Þeir sem nýta sér boð E.C.A. eiga mikið sjónarspil í vændum. Fréttablaðið/vilhelm

Eldgos Hollenska fyrirtækið E.C.A., sem sótt hefur um að fá að skrá 20 óvopnaðar orrustuþotur á Miðnesheiði, ætlar að bjóða landsmönnum í útsýnisflug yfir gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi eftir hádegi í dag í sérútbúnum Herkúles-flutningavélum.

Í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér í gærkvöldi segir að það hafi ekki farið varhluta af þeirri neikvæðu umræðu sem gjarnan fylgi fyrirtækjum sem starfa að hernaði. Ákvörðunin sé liður í að bæta ímynd fyrirtækisins á Íslandi og eyða tortryggni í þess garð.

Herkúles-vélarnar eru yfirleitt notaðar til að flytja hermenn milli landa. Áætlað er að tvær slíkar lendi á Reykjavíkurflugvelli klukkan 14.30 í dag og fari með áhugasama í um einnar og hálfrar klukkustundar útsýnisferð yfir eldgosið. Í tilkynningunni segir að samtals komist um 250 manns í vélarnar og er fólk því hvatt til að mæta tímanlega í flugstöðina.

„Þetta er hrein ögrun yfir páskahátíðirnar,“ segir Stefán Pálsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga. „Það er algjörlega forkastanlegt að þetta sé heimilað og við hljótum að krefjast þess að yfirvöld taki í taumana og við væntum þess að fá Þjóðkirkjuna og biskup með okkur í að mótmæla þessu harðlega.“ Vélarnar séu þess utan óskráðar hér á landi og því vandséð að flugið standist lög.

Stefán hvetur fólk til að mæta á Reykjavíkurflugvöll og mótmæla, og býst við því að hann muni sjálfur verða vopnaður málningu. „Ef allt um þrýtur munum við svo auðvitað reyna að koma í veg fyrir að vélarnar komist á loft.“ - fa



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×