Innlent

Baktjaldamakk í Ölfusi - bæjarstjórinn boðar sérframboð

Ólafur Áki hefur verið bæjarstjóri í Ölfusi í tæp 8 ár. Áður var hann bæjarstjóri á Djúpavogi í 16 ár.
Ólafur Áki hefur verið bæjarstjóri í Ölfusi í tæp 8 ár. Áður var hann bæjarstjóri á Djúpavogi í 16 ár.
„Það er klíka í baklandi Sjálfstæðisflokksins sem hefur ekki geta sætt sig við að ákveðinn meirihluti ráði. Það er hefð fyrir því að hér reyni ákveðnir höfðingjar úti í bæ að stjórna og þeir hafa greinilega tögl og haldir á þessum tveimur bæjarfulltrúum," segir Ólafur Áki Ragnarsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Ölfusi, sem í dag var sagt upp störfum sem bæjarstjóri. Hann boðar sérframboð í vor ásamt bæjarfulltrúanum Sigríði Láru Ásberg.

Tveir af fjórum bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins gengu í dag til samstarfs við minnihlutann í bæjarstjórn. Fyrst verk nýs meirihluta var að segja Ólafi upp störfum. Sjálfstæðismennirnir sem gengu til liðs við minnihlutann eru Birna Borg Sigurgeirsdóttir og Stefán Jónsson. „Þetta er búið að vera að gerjast síðan fyrir jól," segir Ólafur.

Hann vandar einstaklingum í baklandi flokksins, sem hann vill ekki nafngreina, ekki kveðjurnar. „Þessir menn eru dæmigerðir afturhaldssinnar sem komast ekki upp úr framsóknarhjólförunum eins og þau voru á sínum verstu árum í kringum Sambandið. Það er athyglisvert að þetta skuli koma aftur upp hérna."

Ólafur hefur verið bæjarstjóri í Ölfusi í tæp átta ár og áður bæjarstjóri í 16 ár á Djúpavogi. Hann segist ekki vera hættur í pólitík og boðar nýtt framboð. „Þetta verður óháður listi og það eru allir velkomnir." segir Ólafur um hið nýja framboð. Fjölmargir hafi nú þegar sett sig í samband við hann og Sigríði Láru og vilji vera með.

Aðspurður segist Ólafur ekki ætla að segja sig úr Sjálfstæðisflokknum eftir atburði dagsins. „Ég er sjálfstæðismaður út í gegn."


Tengdar fréttir

Meirihlutinn í Ölfusi sprunginn

Tveir bæjarfulltrúar úr meirihluta Sjálfstæðisflokksins í sveitarfélaginu Ölfusi hafa gengið til liðs við minnihlutann og myndað nýjan meirihluta. Frá þessu er greint á vef Ríkisútvarpsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×