Viðskipti innlent

Samtök fjárfesta eiga hundruð milljóna í sjóði

Samtök fjárfesta hafa átt um sjö hundruð milljónir króna á reikningi í þrjú ár.  Fréttablaðið/Stefán
Samtök fjárfesta hafa átt um sjö hundruð milljónir króna á reikningi í þrjú ár. Fréttablaðið/Stefán

„Félagsmönnum hefur ekki fækkað þrátt fyrir hrunið. Í síðasta félagatali voru þeir um fimmtán hundruð. Færri þeirra eiga nú hlutabréf," segir Vilhjálmur Bjarnason, framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta. Samtökin halda almennan fund í dag þar sem fjallað verður um nokkur dómsmál sem gengið hafa að undanförnu, svo sem gegn Glitni og Straumi.

Vilhjálmur segir samtökin hafa komið vel undan efnahagshruninu. Þau keyptu hlutabréf í Verðbréfaþingi í kringum 1995, höfðu arð af fjárfestingunni og fengu dágóða summu þegar sænska kauphallarsamstæðan OMX tók þá íslensku yfir árið 2007. Söluandvirðið var í sænskum krónum. Það hefur frá upphafi legið inni á reikningi, nemur nú sjö hundruð milljónum króna og lýtur bæði stjórn samtakanna og viðskiptaráðuneytis. Einu tekjur sjóðsins eru vextir á reikningnum. Fé úr sjóðnum er nýtt til rekstrar samtakanna og er Vilhjálmur eini launaði starfsmaður þeirra. Eina eign samtakanna til viðbótar eru hlutabréf í Kauphöllinni upp á um sextíu milljónir króna.

Ekki eru greidd félagsgjöld í Samtökum fjárfesta. Vilhjálmur segir það hafa verið reynt síðast fyrir um fjórum árum. Vilhjálmur segir innheimtuna hafa verið dýra og því ákveðið að fella hana niður þegar söluandvirðið skilaði sér á sínum tíma. - jab







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×