Erlent

Bretar vilja alla sína aura - ljá máls á lægri vöxtum

Óli Tynes skrifar
Alistair Darling vill fylla töskuna sína af peningum frá Íslandi.
Alistair Darling vill fylla töskuna sína af peningum frá Íslandi.

Breska blaðið Financial Times segir að Alistair Darling fjármálaráðherra Bretlands haldi fast við að Ísland greiði að fullu lánið sem Bretar veittu vegna Icesave reikninganna.

Hinsvegar sé hann tilbúinn til þess að fallast á að endurskoða skilmálana og þá einkum vexti sem lánið á að bera.

Þar sé einkum um tvær leiðir að ræða. Annars vegar að lánið sé vaxtalaust á hluta þeirra sjö ára sem það verður afborgunarlaust.

Hinsvegar að vextir verði breytilegir á hluta þess tíma sem verið sé að endurgreiða það.

Financial Times segir að með þessu sé ljóst að Bretar fái minna fé til baka en ella, þótt bresku samningamennirnir haldi öðru fram.

Blaðið minnist ekkert á Hollendinga í þessu sambandi. Þess ber þó að gæta að Bretar og Hollendingar hafa verið mjög samstíga í kröfum sínum gagnvart Íslendingum og má því ætla að eitthvað svipað verði upp á teningnum hjá þeim.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×