Innlent

Áfram unnið að sameiningu ráðuneyta

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, varaþingmaður Framsóknarflokks í Norðvesturkjördæmi.
Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, varaþingmaður Framsóknarflokks í Norðvesturkjördæmi. Mynd/GVA
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir að enn sé unnið að sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins í eitt atvinnuvegaráðuneyti. Hún segist gera sér grein fyrir andstöðu við fyrirhugaða sameiningu meðal hluta Vinstri grænna.

Í stjórnarsáttamála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um sameiningu ráðuneytanna. Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir aftur á móti að ekki séu nein skynsamleg rök fyrir slíkri sameiningu. Ýmis samtök í landbúnaði og sjávarútvegi, auk sveitarfélaga, hafa ályktað á sama veg.

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, varaþingmaður Framsóknarflokks í Norðvesturkjördæmi, spurði Jóhönnu á Alþingi í dag hvort hún ætli að beita sér fyrir því að sameiningunni verði frestað.

„Fyrir liggur að landbúnaður og sjávarútvegur munu á næstu árum gegna mikilvægara hlutverki en nokkru sinni fyrr við að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar og að afla gjaldeyristekna til að standa undir skuldbindingum hennar. Það er því mikilvægt að leggja meiri áherslu en minni á þennan málaflokk nú," sagði Sigurgeir.

Jóhanna vonar að frumvarpið verði orðið að lögum í vor.Mynd/Vilhelm

Jafnframt sagði hann að það væri þekkt staðreynd að sameining ríkisstofnanna taki tíma frá öðrum verkefnum. Fráleitt væri að hefja sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins í eitt atvinnuvegaráðuneyti á sama tíma og aðildarviðræður Íslands við ESB væru við það að hefjast.

Jóhanna sagði að áfram væri unnið sameiningunni. Hún sagðist gera sér grein fyrir því að andstaða væri við málið að einhverjum hluta innan VG. Aftur á móti væri ástæðulaust að óttast að með sameiningu ráðuneytanna komi staða landbúnaðar og sjávarútvegs til með að versna í væntanlegum aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

„Þvert á móti held ég að við getum með betri hætti haldið á okkar málstað með stofnun eins ráðuneytis," sagði Jóhanna. Hún vonast til þess að frumvarp um sameiningu ráðuneytanna í eitt atvinnuvegaráðuneytið verði lagt fyrir Alþingi á yfirstandandi þingi og að frumvarpið verði orðið að lögum í vor.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×