Innlent

Niðurlægjandi líkamsárás í Keflavík tekin upp á myndband

Óhugnanlegt og niðurlægjandi myndskeið.
Óhugnanlegt og niðurlægjandi myndskeið.

Gróft og niðurlægjandi myndskeið má finna á vefsíðunni Youtube af íslenskum unglingum að misþyrma öðrum pilt. Í athugasemdakerfi fyrir neðan myndbandið stendur að piltarnir séu fæddir 1995 og eru þeir því fimmtán ára gamlir. Myndbandið var sett inn á vefinn fyrir mánuði síðan.

Árásin virðist hafa átt sér stað í Keflavík, nánar tiltekið á Vatnsholti.

Myndbandið er hljóðskreytt með tónlist líkt og um eðlilegt afþreyingaefni væri að ræða en á því má sjá einn ungling ganga í skrokk á öðrum pilti. Allt í kring er hópur unglinga sem fylgist með aðförinni sem er bæði gróf og niðurlægjandi. Í einu broti myndskeiðsins má sjá þriðja piltinn blanda sér inn í áflogin og slær fórnalambið bylmingshögg í andlitið.

Að lokum nær árásarmaðurinn að snúa fórnalambið niður og lætur höggin dynja linnulaust á honum. Síðan rífur hann drenginn upp, eins og sést á myndum hér við hliðina á, og heldur áfram að slá hann ítrekað í andlitið.

Allan tímann er árásin tekin upp, sennilega á farsíma. Svo hefur hún verið sett inn á myndbandasíðuna Youtube þar sem allir geta nálgast myndbandið.

Árásin minnir um margt á alvarlega líkamsárás þar sem þrír piltar misþyrmdu yngri pilt í Njarðvík fyrir um tveimur árum síðan. Þeir piltar voru ákærðir fyrir alvarlega líkamsárás og að lokum dæmdir fyrir brotið.

Ekki er ljóst hverjir tóku myndbandið upp eða eiga hlut að árásinni sem um ræðir.

Ekki verður vísað á myndbandið hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×