Innlent

Tryggvi Gunnarsson: Sár og svekktur yfir því sem hann hefur séð

Rannsóknarnefnd Alþingis. Tryggvi Gunnarsson t.v., Páll Benediktsson fyrir miðju og Sigríður Benediktsdóttir.
Rannsóknarnefnd Alþingis. Tryggvi Gunnarsson t.v., Páll Benediktsson fyrir miðju og Sigríður Benediktsdóttir.

Formaður Rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið sagði á blaðamannafundi í morgun að til þess að geta tekist á við þann gríðarlega vanda sem endaði með bankahruni þurfi þjóðin að skilja hann.

„Þetta er forsendan fyrir því að geta haldið áfram og náð sátt en það þarf enginn að búast við öðru en að einhver verði leiður, það bjóst enginn við því að við værum að færa fram fagnaðarerindi með þessari skýrslu," sagði Páll Hreinsson.

Hann segir að þjóðin þurfi að leggja reiðina sem kunni að fylgja í kjölfar útgáfu skýrslunnar í uppbyggilegan farveg - „það gerist ekki með eignaspjöllum, líkamstjóni eða öðru slíku. Við verðum að takast á við þetta ef við ætlum að komast áfram í uppbyggingunni," sagði Páll.

Tryggvi Gunnarsson bar upp þá hugmynd að þjóðin fái frí í nokkra daga til að lesa skýrsluna til að átta sig á því hvað gerðist.

Þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave fer væntanlega fram 6. mars nk. Allt bendir því til að skýrslan um bankahrunið komi út á svipuðum tíma og þjóðin gengur til atkvæðagreiðslu um eitt stærsta mál lýðveldissögunnar.

Páll segir að þjóðin þurfi að fá skýrsluna í hendurnar um leið og hún verður tilbúin, sama hvað annað sé í gangi í þjóðfélaginu á þeim tíma. Hann minnir á að í skýrslunni er fjallað um Icesave fram að hruni og hvernig Icesave reikningarnir urðu til.

Tryggvi segir að starfið hjá Rannsóknarnefnd Alþingis hafi verið mikil lífsreynsla.

„Maður hefur stundum verið nærri gráti og stundum afskaplega pirraður yfir því sem maður hefur séð." Hann segir að rannsóknin hefði tekið á hvern þann sem að henni hefði komið. Enda séu afleiðingarnar fyrir íslenskt samfélag slíkar að það jafnist á við hamfarir.

„Þegar maður hefur áttað sig á því hvar hlutir voru gerðir og sérstaklega hvar hlutir voru ekki gerðir þá verður maður sár og svekktur."





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×