Innlent

„Flokksráð VG veður reyk“

Andrés Pétursson.
Andrés Pétursson. Mynd/Valgarður Gíslason
„Flokksráð VG veður reyk og heldur að Ísland glati sjálfstæði sínu við aðild að ESB. Ekkert aðildarríkja hefur glatað sjálfstæði sínu við aðild," segir á vef Evrópusamtakanna um ályktun flokksráðs Vinstri grænna um Evrópumál sem samþykkt var á fundi ráðsins á Akureyri fyrr í dag. Formaður Evrópusamtakanna segir ljóst að hugsanleg aðild Íslands að sambandinu snúist um það hvort að Íslendingar vilji vera óvirkir viðtakendur eða virkir þátttakendur í alþjóðasamfélaginu.

Flokksráð VG ítrekaði í ályktun sinni andstöðu flokksins við hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þrátt fyrir að nú hafi verið sótt um aðild að sambandinu, er það eindreginn vilji ráðsins að Ísland haldi áfram að vera sjálfstætt ríki utan Evrópusambandsins.

„Flokksráð Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs hvetur ráðherra, þingmenn og félagsmenn Vinstri grænna um allt land til að halda stefnu flokksins um andstöðu við aðild Íslands að ESB á lofti og berjast einarðlega fyrir henni," segir í samþykktinni.

Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, undrast ályktun flokksráðsins. Hann segir í samtali við fréttastofu að sér virðist sem að flokksfélagar í VG séu ekki reiðubúnir til að líta á heiminn eins og hann sé í dag.

„Þetta gengur út á samvinnu þjóða og þá er spurning á hvaða formi menn vilja vinna hlutina. Hvort að menn vilji vera passífir viðtakendur laga og reglna og vera svolítið á hliðarlínunni eða sitja við borðið sem fullgildir meðlimir og virkir þátttakendur og taka þannig þátt í að þróa þá löggjöf sem mun hafa áhrif á Íslandi og annarsstaðar, til dæmis í umhverfismálum," segir Andrés.


Tengdar fréttir

Ráðherrar berjist gegn ESB-aðild

Flokksráð Vinstri grænna ítrekar andstöðu flokksins við hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þrátt fyrir að nú hafi verið sótt um aðild að sambandinu, er það eindreginn vilji flokksráðs að Ísland haldi áfram að vera sjálfstætt ríki utan Evrópusambandsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×