Innlent

UNICEF á Íslandi safnar fyrir Haítí

MYND/AP

Lífsnauðsynleg hjálpargögn berast nú í stórum stíl til Haítí í gegnum birgðanet UNICEF og samstarfsstofnanna. Ástandið á vettvangi er hins vegar svo alvarlegt að hjálpargögnin ná vart að mæta hinni gríðarlegu þörf sem þar hefur skapast. Aukning á aðstoð er lífsnauðsynleg fyrir íbúa Haítí. Í tilkynningu frá UNICEF segir að lítið sem ekkert franboð sé af rennandi vatni á jarðskjálftasvæðunum eins og stendur, en skortur á ómenguðu rennandi vatni getur haft skelfilegar afleiðingar í för með sér. „Þær afleiðingar bitna mest á börnunum og ber þá helst að nefna sjúkdóma eins og kóleru, taugaveiki, beinbrunasótt og malaríu."

Nær helmingur undir átján ára aldri

Þá segir ennfremur að um 46 prósent íbúa á Haítí séu yngri en 18 ára og búast má við því að mikill fjöldi þessara barna og unglinga hafi upplifað aðskilnað við foreldra sína, missi náinna ættingja og eyðileggingu heimila sinna. „Forgangsatriði í neyðaraðgerðum UNICEF er að börn fái þá umönnun, vernd og aðstoð sem þau þurfa. Brýnast er að tryggja aðgengi að ómenguðu vatni, heilsugæslu, skjóli og næringu, með því að opna samskipta- og flutningsleiðir og útvega hjálpargögn eins og segldúka, fötur, eldunaráhöld, næringarefni, lyf og vatnshreinsitöflur. Einnig er brýnt að huga að vernd barna og aðgengi þeirra að menntun og félagslegum og sálrænum stuðningi."

Búist er við að fjöldi dauðsfalla muni hækka ef aðstoð í formi lyfja, húsaskjóls, aðgengis að ómenguðu vatni og uppbyggingar á hreinlætisaðstöðu eykst ekki á næstu dögum. „Þörfin á auknu fjármagni fyrir neyðaraðgerðir er því gríðarleg," segir ennfremur en UNICEF á Íslandi hóf söfnun fyrir fórnarlömb jarðskjálftanna í gær og voru Íslendingar fljótir að taka við sér. Á fyrstu klukkutímunum höfðu safnast yfir milljón krónur.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×