Viðskipti erlent

Telur nýjar samningaviðræður um Icesave þegar í gangi

Lise Lyck forstöðumaður ferðamála- og menningardeildar Copenhagen Business School telur að nýjar samningaviðræður um Icesave séu þegar í gangi. Hún segir að slíkt hljóti að vera svo að samingsaðilar séu viðbúnir því að íslenska þjóðin felli núverandi Icesave frumvarp í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Rætt er við Lise Lyck í blaðinu Politiken um Icesave málið. Hún segir að þótt málið virðist vera í óleysanlegum hnút í augnablikinu muni koma fram lausn á því. Hún er ennfremur bjartsýn á framtíð Íslands til lengri tíma litið þótt skammtímahorfur séu vissulega mjög dökkar.

„Mesti ótti bankanna er að engin peningar komi til baka, það er að afskrifa þurfi skuldirnar niður í 0," segir Lyck. „Þetta er stærsta martröð bankaheimsins og það er gömul grundvallarregla í þeim heimi að maður á aldrei að drepa skuldunaut sinn. Þess vegna tel ég að nú þegar séu leynilegar samningaviðræður hafnar til að fá fram nýtt samkomulag fari svo að atkvæðagreiðslan endi með höfnun."

Lyck segir ennfremur að Bretar og Hollendingar muni að sjálfsögðu ekki segja það opinberlega að þeir séu tilbúnir til að slá af kröfum sínum. „En það eru fleiri möguleikar til staðar," segir Lyck. „Þeir geta lækkað vextina, lengt lánstímann og svo framvegis."







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×