Innlent

Forsetinn líka hvattur til þess að staðfesta lögin

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það eru margir að skora á Ólaf Ragnar Grímsson þessa dagana.
Það eru margir að skora á Ólaf Ragnar Grímsson þessa dagana.
Settur hefur verið upp undirskriftarlisti til þess að hvetja Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, til þess að staðfesta Icesave lögin.

„Kveikjan að þessari hugmynd var sú að það eru rosalega margir sem hafa skrifað undir Indefence undirskriftarlistann, en það er ekkert mótsvar við honum. Það er ekkert sem ég gat skrifað undir sem var hinn póllinn," segir Haukur Jónasson sem stendur að baki undirskriftasöfnuninni.

Átta manns höfðu skráð nafn sitt við áskorunina þegar Vísir hafði samband við forsvarsmanninn. Í áskoruninni segir meðal annars.

„Við teljum að afleiðingar þess að hafna lögunum muni vera verri fyrir þjóðina en hljóti þau samþykkt, sérstaklega hvað varðar samskipti við önnur ríki. Af tvennu illu teljum við samþykkt laganna sem sagt skárri kostinn."

Haukur segist standa einn að undirskriftarlistanum og hann ætli ekki að stofna nein samtök til höfuðs InDefence. Haukur segir að það komi til greina að færa forseta Íslands undirskriftirnar ef að hann fái nógu jákvæð viðbrögð við listanum. Hann hefur hins vegar ekki sett sér nein markmið um fjölda undirskrifta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×