Viðskipti innlent

Óþekkt fyrirtæki greiðir hærri skatt en Alcoa

Óþekkt fyrirtæki skráð í Mosfellsbæ greiðir hærri skatta til samneyslunnar en álver Alcoa á Reyðarfirði. Fyrirtækið Mosfellska er í fjórða sæti yfir þau félög utan Reykjavíkur sem greiða hæstu skattana til þjóðfélagsins.

Á topp tíu listum skattaumdæmanna kemur líklega fæstum á óvart að það fyrirtæki sem greiðir hæstu skatta utan Reykjavíkur er álverið í Straumsvík með tæpan milljarð, og þá álverið á Grundartanga sem greiðir 745 milljónir króna. Ítalska verktakafyrirtækið Impregilo sem vann að Kárahnjúkavirkjun er síðan í 3. sæti. Í fjórða sæti utan Reykjavíkur er hins vegar lítt þekkt einkahlutafélag sem heitir Icecraft. Það greiðir 208 milljónir króna í skatta fyrir síðasta ár.

Þær láta ekki mikið yfir sér skrifstofur Icecraft á Íslandi í Skógarhlíðinni í Reykjavík. Eftir því sem fréttastofa kemst næst starfar félagið ekkert á Íslandi heldur aðallega á Norðurlöndunum við að kaupa og selja flugvélar. Þannig hefur það víst haft milligöngu um sölu á mörgum cessna flugvélum á síðustu árum.

Síðastliðið ár var óvenju gott í sögu félagsins, svo gott að hagnaðurinn nær sextánfaldaðist á milli ára, fór úr rúmum hundrað milljónum króna árið 2007 - í 1600 milljónir á síðasta ári.

Ævintýralegur vöxtur. Hvernig hann er tilkominn er ekki gott að segja því eigandi félagsins baðst undan viðtali. En flugvélasalan hefur gengið vel í fyrra því Icecraft borgaði fimmtán milljónum meira í skatta en sjálft álverið á Reyðarfirði.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×