Innlent

Lögreglumenn þreyttir á breytingum

Arinbjörn segir hugsanlegt að dómsmálaráðherra mæti á fundinn. Mynd/Vilhelm
Arinbjörn segir hugsanlegt að dómsmálaráðherra mæti á fundinn. Mynd/Vilhelm

Lögreglumenn á höfuð­borgarsvæðinu hafa blásið til almenns félagsfundar síðdegis í dag til að ræða ástandið í lögreglumálum í borginni. Lögreglumenn eru ósáttir við nýlegar og væntanlegar breytingar á skipulagi lögreglunnar.

Rannsóknardeildir lögreglunnar hafa verið fluttar út í nýjar hverfis­lögreglustöðvar, sem til stendur að veita enn frekara sjálfstæði. Að sögn Arinbjörns Snorrasonar, formanns Félags lögreglumanna á höfuðborgarsvæðinu, eru rannsóknarlögreglumenn óánægðir með breytinguna sem orðið hefur.

Arinbjörn segir að með því að setja á fót þessar sjálfstæðu lögreglustöðvar sé í raun verið að snúa við þeirri breytingu sem gerð var í ársbyrjun 2007, þegar lögregluembætti á höfuðborgar­svæðinu voru sameinuð í eitt. „Það má eiginlega segja að þeir séu komnir í ríflega 360 gráður," segir hann. Sameiningin hafi augljóslega mistekist að hluta eða öllu leyti.

Þá er að störfum vinnuhópur innan dómsmálaráðuneytisins sem ætlað er að skila tillögum til ráðherra um enn frekari skipulagsbreytingar hjá lögregluembættum landsins, sem kunna að verða víðtækar að sögn Arinbjörns.

„Við erum orðin breytingaþreytt," segir Arinbjörn. „Við höfum verið í hálfgerðu breytingaferli síðan 1997, mannskapurinn er kominn á ystu brún."





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×