Innlent

Framúrkeyrsla um 45 prósent

Hagfræðingur við Háskólann gagnrýnir Landsvirkjun fyrir að beita aðferðum sem sýni ekki raunverulega framúrkeyrslu.fréttablaðið/stefán
Hagfræðingur við Háskólann gagnrýnir Landsvirkjun fyrir að beita aðferðum sem sýni ekki raunverulega framúrkeyrslu.fréttablaðið/stefán

Sigurður Jóhannesson, hagfræðingur við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, segir að kostnaður við Kárahnjúkavirkjun hafi farið um 45 prósent fram úr áætlun. Sé tillit tekið til vaxta sé framúrkeyrslan um 40 prósent. Sigurður miðar þarna við Bandaríkjadali, enda séu tekjur af virkjuninni í þeirri mynt.

Sigurður gagnrýnir aðferðafræði Landsvirkjunar sem uppfærir upphaflega kostnaðaráætlun með byggingarvísitölu og fær út að framúrkeyrsla hafi verið um sjö prósent.

„Við þessa aðferð er ýmislegt að athuga. Byggingarvísitala hækkaði mikið meðan unnið var að Kárahnjúkavirkjun, meðal annars vegna eftirspurnarþrýstings frá virkjuninni sjálfri," segir í greinargerð Sigurðar. Þá hafi gengi hækkað af sömu ástæðu.

Í uppfærðu arðsemismati Kárahnjúkavirkjunar, sem gert var í janúar 2008, varð arðsemi eigin fjár hækkuð úr 11,9 í 13,4 prósent. Sigurður segir alvarlega ágalla á þeirri niðurstöðu, enda hafi ný aðferðafræði verið notuð. Í stað spár sérfræðinga um álverð var miðað við þáverandi markaðsverð á áli og framvirkt verð. Það gefi mun hærri tölur. Þá sé ekki útskýrt hví skipt er um aðferð, en ætla megi að kostnaður hafi verið svo mikill að „nauðsynlegt hafi þótt að lappa upp á tekjuhliðina".- kóp





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×