Innlent

Nær 200 umsóknir um fjörutíu störf

Á bak við tæplega 180 umsóknir um störf í lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu standa 120 lögreglumenn. Sumir sækja um fleiri en eina stöðu af um fjörutíu sem auglýstar hafa verið.
Á bak við tæplega 180 umsóknir um störf í lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu standa 120 lögreglumenn. Sumir sækja um fleiri en eina stöðu af um fjörutíu sem auglýstar hafa verið.

Um 180 umsóknir bárust um fjörutíu stöður sem nýlega voru auglýstar lausar til umsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Á bak við þessar umsóknir eru 120 umsækjendur, því nokkrir sóttu um fleiri en eina stöðu.

Að sögn Stefáns Eiríkssonar, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, eru nú rúmlega þrjátíu af þeim stöðum sem auglýstar voru lausar til umsóknar, setnar. Menn í þeim hafa verið í tímabundnum ráðningum eða setningum. Að auki er um að ræða sjö til átta stöður til viðbótar. Samtals gera þetta 39 til fjörutíu stöður.

„Það er enginn að fela eitt né neitt í þessum efnum,“ segir Stefán, spurður um hvort verið sé að auglýsa stöður sem þegar séu mannaðar, eins og þær séu nýjar, eins og látið er að liggja á vefsíðu Landssambands lögreglumanna.

„En það sem við stóðum jafnvel frammi fyrir var það að láta þetta fólk, sem var með tímabundna ráðningu hjá okkur, fara. Við sáum mögulega fram á að endar myndu ekki ná saman. En þær hagræðingaraðgerðir sem við höfum gripið til hafa gert það að verkum að við getum tryggt þessar stöður áfram á næsta ári, sem ekki leit út fyrir um tíma, og meira að segja bætt líka í hópinn til viðbótar.“

Að meginstofni til eru breytingar á skipulagi og vaktkerfi að skila lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu umræddri hagræðingu, að sögn Stefáns, auk annarra breytinga sem greint hefur verið frá í fréttum.

„Þessar breytingar skila okkur 150 milljónum upp í þær 225 milljónir sem við þurfum að hagræða um á næsta ári. Langþyngst vega þó vaktkerfisbreytingarnar í þessari hagræðingu og opna fyrir þennan möguleika að halda fólki í störfum. Þetta undirstrikar nauðsyn þess að gera þessar breytingar. Þær eru faglega skynsamlegar og skila fjárhagslegri hagræðingu sem okkur er lífsnauðsynleg.“

Stefán segir einnig spila inn í þetta dæmi að einhverjir lögreglumenn hætti á næsta ári sökum aldurs og af öðrum ástæðum. Gert sé ráð fyrir því í áætlunum að ekki verði ráðið í stað þeirra. Fremur verði yfirmannastöður mannaðar innan úr liðinu.

jss@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×