Erlent

Mörg þúsund myndbönd tekin af YouTube í kvöld

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
YouTube.
YouTube.

Mörg þúsund tónlistarmyndbönd verða fjarlægð af myndskeiðavefnum YouTube í kvöld þar sem samningar náðust ekki við eigendur höfundarréttar.

Samningaviðræður Google, sem á og rekur YouTube, við samtök eigenda höfundarréttar að tónlist í Bandaríkjunum, eru sigldar í strand og blæs ekki byrlega fyrir framhaldssamningi um birtingu tónlistarmyndbanda á YouTube sem eru skelfilegar fréttir fyrir tölvunotendur um allan heim sem daglega heimsækja vefinn, hvort tveggja til að hlýða á tónlist eða horfa á hvers kyns myndbönd sem þar er að finna.

Talsmenn YouTube saka höfundarréttarsamtökin um þvermóðsku og almenn leiðindi þar sem þau ætli sér nú að stórhækka greiðslur YouTube fyrir notkunina og krefjast ákveðinnar upphæðar í hvert skipti sem lag er spilað af vefnum.

Þá neiti samtökin að gefa upp til hvaða tónverka samningurinn taki og það finnst samningamönnum YouTube í besta falli hlægilegt. Þeir líkja því við að fólk fari út i búð og kaupi sér geisladisk án þess að vita nokkuð um hvað er á honum fyrr en þeir setja hann í spilarann. YouTube-notendum er því bent á að nýta daginn í dag vel því allt er í heiminum hverfult, líka tónlistin sem verður fjarlægð í kvöld.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×