Viðskipti innlent

Ástarbréf Landsbankans kosta ríkið 80 milljarða

Tap ríkisins vegna veð- og daglána Seðlabankans til gamla Landsbankans nemur hátt í 80 milljörðum króna.

Við fall gömlu bankanna féllu á ríkissjóð ýmsar skuldbindingar sem hann þarf að taka á sig. Má bæði nefna stofnfjár- og eiginfjárframlag inn í nýju bankana og yfirtöku ótryggðra tryggingabréfa vegna veð- og daglána Seðlabanka til banka hér á landi. Bréfin hafa í daglegu tali verið kölluð ástarbréf.

Með aðkomu erlendra kröfuhafa að Íslandsbanka, og mögulega Kaupþingi má gera ráð fyrir að kostnaður vegna stofnfjár og eiginfjárframlags ríkisins inn í nýju bankana verði minni en áætlað var í fyrstu. Annað gildir hins vegar um kostnaðinn vegna veð- og daglána Seðlabankans. Ríkissjóður yfirtók þessi lán í byrjun árs af Seðlabankanum og greiddi 270 milljarða króna fyrir.

Með þessu var komið í veg fyrir tæknilegt gjaldþrot Seðlabankans. Í vefriti Fjármálaráðuneytisins frá því í janúar kemur fram að ekki liggi nákvæmlega fyrir hvað innheimtist af þeim bréfum sem ráðuneytið keypti af Seðlabankanum. Í áætlununum ráðuneytisins er gert ráð fyrir að 50-80 milljarðar innheimtist, eða 15-22% af kröfunum.

Samkvæmt kröfuskrá Landsbankans sem fréttastofa hefur undir höndum gerir Fjármálaráðuneytið hátt í 80 milljarða króna kröfu í þrotabú gamla Landsbankans. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er sú upphæð að langmestu leyti tilkomin vegna umræddra bréfa sem Fjármálaráðuneytið yfirtók af Seðlabankanum. Krafa Fjármálaráðuneytisins er ekki flokkuð sem forgangskrafa í þrotabúinu. Því er nánast útilokað að nokkuð fáist upp í hana.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×