Skoðun

Nýtt lýðveldi

Njörður P. Njarðvík skrifar

Lýðveldi Íslendinga, stofnað 1944, er því miður gengið sér til húðar. Spilltir stjórnmálamenn hafa breytt því í flokksveldi og þar með í reynd gengið af því dauðu. Þrískipting stjórnvalds er hunsuð, Alþingi breytt í afgreiðslustofnun framvæmdavalds - og meira að segja skipan dómara fer eftir geðþótta valdsmanna. Þetta blasir við nú eftir hrun efnahagsins - sem hvorki má líkja við hamfarir né snjóskafla - því að það varð ekki af náttúrunnar völdum heldur fjárglæframanna sem fengu að leika lausum hala meðan sjálfumglaðir stjórnmálamenn horfðu á með glýju í augum, og hylltu þá jafnvel með eggjunarorðum. Íslensk stjórnvöld brugðust þeirri skyldu að gæta hagsmuna þjóðarinnar.

Endanlega ábyrgð á hruninu bera ríkisstjórn og Alþingi. Þess vegna er íslenska lýðveldið í raun dautt. Og öllum má vera ljóst, að stjórnvöld sem hafa brugðist svo hrapallega, geta hvorki rannsakað eða hreinsað til í fortíðinni né varðað veg til framtíðar, enda hafa þau hvorki til þess traust né fylgi - og enga framtíðarsýn.

Því er með ólíkindum sá valdhroki sem sumir ráðherrar sýna nú. Þarf ekki annað en vísa til framgöngu heilbrigðisráðherra á síðustu dögum. Þjóðin mun ekki láta bjóða sér slíkt öllu lengur. Hætta er á að hún neiti að hlýða stjórnvöldum og við taki allsherjar upplausn og glundroði með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Því að slíkt öngþveiti getur orðið jarðvegur fyrir lýðskrumara - eins og við þekkjum annars staðar frá. Þess vegna er brýnt að bregðast við skjótt og af festu og marka íslensku samfélagi nýja braut þjóðinni til framtíðarheilla. Það sem hér hefur gerst er ekkert skammtímafyrirbæri heldur á sér langan aðdraganda. Vandi þjóðarinnar er svo mikill, að hann verður ekki leystur nema með róttækum aðgerðum og grundvallarbreytingu á íslenskri stjórnskipan.





Neyðarstjórn til bráðabirgða

Nú þarf hvorki meira né minna en að fara að fordæmi Frakka og stofna nýtt lýðveldi með algerlega nýrri stjónarskrá. Rétt eins og bankastjórarnir gengu út þegar bankarnir hrundu, þannig á ríkisstjórnin að ganga út og leggja niður völd. Þing þarf að rjúfa og senda þingmenn heim. Skipa þarf neyðarstjórn til bráðabirgða - segjum til 12-16 mánaða - utanþingsstjórn valinkunnra manna og kvenna með víðtæku valdsviði. Henni skal umfram allt falið tvenns konar hlutverk.

Annars vegar á neyðarstjórnin að standa fyrir rannsókn og uppgjöri í kjölfar efnahagshrunsins - og nauðsynlegri hreinsun í ákveðnum stofnunum, svo sem Seðlabanka og Fjármálaeftirlitinu. Birta þarf opinberlega allar niðurstöður og fylgja þeim eftir með lögsókn, ef með þarf.

Hins vegar á neyðarstjórnin að semja algerlega nýja stjórnarskrá. Það ætti að vera hægt á einu ári. Að því loknu skal bera hina nýju stjórnarská undir þjóðaratkvæði og í framhaldi af því efna til þingkosninga samkvæmt nýrri stjórnskipan. Þessu ætti að vera unnt að ná fram á 16 mánuðum. Þá skilar neyðarstjórnin af sér til nýs Alþingis og nýrrar ríkisstjórnar.



Ný stjórnarskrá

Meginmarkmið nýrrar stjórnarskrár er að tryggja raunverulega þrískiptingu stjónvalds - og þar með endurreisa Alþingi sem æðstu valdastofnun Íslands.

Mér finnst rétt að forseti Alþingis sé þjóðkjörinn persónulegri kosningu samhliða öðrum þingmönnum. Skynsamlegt væri að taka upp finnsku aðferðina, þar sem allir frambjóðendur allra flokka hafa ákveðið númer og kjósandi velur einn frambjóðanda - sem dregur síðan með sér aðra samflokksmenn.

Þá er ekki raðað á lista, heldur er það á valdi kjósenda. Þannig yrði flokksveldið að nokkru brotið á bak aftur. Þingmönnum skal bannað að gegna nokkru öðru starfi, þar með talin seta í stjórnum, nefndum og ráðum utan þings, - líkt og nú er um hæstaréttardómara. Þingmenn mega ekki jafnframt vera í ríkisstjórn. Verði þeim falinn ráðherradómur, skulu þeir segja af sér þingsæti sínu. Rétt er að takmarka þingsetu við þrjú kjörtímabil. Landið skal vera eitt kjördæmi.

Að loknum kosningum felur forseti Alþingis einhverjum að mynda stjórn samkvæmt úrslitum þeirra og hefur sá frjálsar hendur til mannvals. Ekki er fráleitt að hugsa sér að þingmenn og ráðherrar hafi sömu laun - t.d. þau sömu og hæstaréttardómarar (hugsanlega eitthvað hærri fyrir forseta þingsins og leiðtoga ríkisstjórnar) - en sömu eftirlaunaréttindi og aðrir embættismenn ríkisins.

Nauðsynlegt er að allir þingflokkar eigi sæti í öllum nefndum þingsins, og eðlilegt væri að fjárlög þyrfti að samþykkja með auknum meirihluta til að tryggja áhrif stjórnarandstöðu. Þingmönnum má fækka, en ekki alltof mikið, gætu t.d verið 49. Og þar sem þeir helguðu sig eingöngu þingstörfum þyrftu þeir enga aðstoðarmenn - enda er það ein aðferð flokksvaldins til að koma sínum mönnum á jötu.



Siðferðiskrafa og ábyrgð

Með þessum tillögum er dregið verulega úr ráðherravaldi, sem er alltof mikið hér og miklu meira en í nágrannalöndum okkar. Það mætti meira aðsegja láta sér detta í hug að hætta að nota nafnið „ráðherra" - enda virðist sú nafngift stórauka hroka sumra stjórnmálamanna sem telja sig þar með „herra" yfir lýðnum, hafna yfir almenn siðferðisgildi. Enginn vandi er að finna eitthvert annað nafn. Mér dettur í hug orðið „frömuður" - menntafrömuður, iðnfrömuður - hljómar það nokkuð illa? Ríkisstjórn á að þjóna þjóð sinni, en ekki vera herra hennar.

Vel mætti hugsa sér að forseti Alþingis kæmi fram fyrir hönd þjóðarinnar og embætti þjóðhöfingja lagt niður. Hann gæti líka heitið lögsögumaður eins og á þjóðveldisöld. Þá var enginn þjóðhöfðingi.

En umfram allt þarf að setja í nýja stjórnarskrá skýr og ströng ákvæði um siðferði og ábyrgð alþingismanna og ráðherra. Bregðist þeir, skulu þeir víkja.

Höfundur er rithöfundur og prófessor emeritus við Háskóla Íslands.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×