Innlent

Vonar að þjónusta lögreglu versni ekki

Niðurskurður Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þarf að skera niður um 57,1 milljón króna á síðari helmingi ársins. Lögreglustjóri segist ítrekað hafa varað við frekari niðurskurði, en fjárveitingarvaldið sé hjá Alþingi.Fréttablaðið/Daníel
Niðurskurður Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þarf að skera niður um 57,1 milljón króna á síðari helmingi ársins. Lögreglustjóri segist ítrekað hafa varað við frekari niðurskurði, en fjárveitingarvaldið sé hjá Alþingi.Fréttablaðið/Daníel
„Þjónusta lögreglunnar við borgarana má ekki vera verri, okkar markmið er að þjónustan skerðist ekki, og ég vona að það takist,“ segir Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra. Unnið er að tillögum um niðurskurð hjá lögregluembættum landsins hjá dómsmálaráðuneytinu, en óvíst er hvenær þær verða kynntar.

Ragna segir að lengi hafi legið fyrir að tíu prósenta hagræðingarkrafa sé gerð til allra málaflokka annarra en menntamála og velferðarmála. Ekki hafi verið talið æskilegt að fara í flatan niðurskurð hjá lögregluembættum landsins, og því sé nú leitað annarra leiða til að mæta hagræðingarkröfunni.

Lögreglumenn hafa undanfarið bent á slæmt ástand löggæslu í landinu. Sú umræða hefur raunar verið í gangi lengi. Ragna segir að í dómsmálaráðuneytinu sé fylgst grannt með þróun mála, en fjárveitingar hafi verið ákveðnar og ekki komi til greina að sækjast eftir aukafjárveitingu fyrir lögregluna.

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, segist ítrekað hafa varað við frekari niðurskurði hjá lögreglu. Fjárveitingarvaldið sé hins vegar hjá Alþingi, og þegar þaðan berist fyrirmæli um niðurskurð verði að hlíta því.

Lögregluembætti um allt land þurfa að skera niður í rekstri á síðari hluta ársins. Stefán segir að gerð sé krafa um að skorið verði niður um 57,1 milljón króna á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglumenn fullyrða að viðbragðstími lögreglu sé í mörgum tilvikum óviðunandi. Stefán segist ekki hafa tölfræði um það fyrir framan sig, en verkefnum sé augljóslega forgangsraðað. Forgangsverkefnum sé sinnt fyrst á kostnað verkefna sem megi bíða. Það skili sér óhjákvæmilega í því að lengri tíma taki að leysa úr verkefnum sem geti beðið.

Stefán hafnar því að fjárskortur hafi valdið því að ekki hafi verið til tómir diskar fyrir upptökutæki lögreglu, eins og lögreglumenn fullyrða. Lögreglan endurnýti gamla diska og handvömm hafi valdið því að ekki hafi verið til tómir diskar. Úr því hafi nú verið bætt.

Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri segir Reykjavíkurborg hafa átt mjög gott samstarf við löggæsluyfirvöld á liðnum árum. Ástandið sé þannig að allir verði að skera niður, en hún treysti því að lögregla og dómsmálayfirvöld útfæri slíkan niðurskurð með hagsmuni borgarbúa í huga.

brjann@frettabladid.is


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×