Innlent

Icesave hentar ekki í þjóðaratkvæði

Sigurður Líndal, lagaprófessor, segir að Icesave frumvarpið henti ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu. Slíkt hljóti að valda óvissu og truflunum í samskiptum ríkja. Þetta kemur fram í grein sem Sigurður skrifar í Fréttablaðið í dag.

Sigurður segir að á þessari stundu sé óvíst um afdrif Icesave frumvarpsins. Á hvorn veg sem fer sé ljóst að mjótt verður á munum. Nú hafi synjunarvald forseta komist enn á ný á dagskrá.

„Ef marka má skoðanakannanir virðist ríflegur meirihluti þjóðarinnar vera því andvígur, þannig að djúp gjá virðist vera milli þings, þ. e. meirihluta þings, og þjóðar ef frumvarpið nær samþykki eins og forseti taldi að verið hefði við setningu fjölmiðlalaganna. Við samanburð verður þó að gæta þess að fjölmiðlamálið var innanríkismál, en Icesave-málið er milliríkjamál, þannig að málin eru ekki sambærileg," segir Sigurður. Gjáin milli þings og þjóðar hafi hins vegar ekki verið brúuð og fyrirvarar að mestu eða öllu leyti brott fallnir.

Sigurður veltir fyrir sér hvernig forsetinn kemur til með að bregaðst við verði Icesave frumvarpið samþykkt á Alþingi. „Hugsanlega telur hann eitthvert hald í frumvarpinu eins og það liggur fyrir, en annað vegur þó vafalaust þyngra - hvort rétt sé að leggja mál sem lúta að lagaheimild til samningsgerðar við önnur ríki undir þjóðaratkvæði. Slíkt hlýtur að valda óvissu og truflunum í samskiptum ríkja."

Þá segir Sigurður að þjóðréttarskuldbindingar henti almennt ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu. Hitt sé svo annað mál að Icesave málið sé ekkert venjulegt milliríkjamál.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×