Viðskipti innlent

Minni landflótti erlendra ríkisborgara en vænta mátti

„Það hefur vakið undrun margra hversu lítið innflytjendum hér á landi hefur fækkað núna í kreppunni. Um síðustu áramót voru 28.644 innflytjendur hér á landi eða 9% mannfjöldans. Á fyrstu níu mánuðum ársins fluttu 3.538 erlendir ríkisborgarar frá landinu en 2.793 til landsins þannig að innflytjendum hefur fækkað um 745 á tímabilin, eða um 2,6%."

Þetta segir í umfjöllun um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir ennfremur að þetta sé öll fækkunin á tíma þegar hagkerfið er að ganga í gegnum afar erfiða gjaldeyris- og bankakreppu og geirar á borð við byggingariðnaðinn, þar sem erlent vinnuafl var afar stór hluti vinnuaflsins, hefur tekið mikla niðursveiflu með gjaldþrotum fyrirtækja, fækkun verkefna, launalækkunum og uppsögnum.

Alls voru 1.764 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok október síðastliðinn og voru langflestir þeirra áður starfandi í byggingariðnaði. Mikill meirihluti erlendra ríkisborgara hér á landi er í starfi og er það eflaust ein ástæða þess að landflóttinn hefur ekki verið meiri í þeirra röðum.

Þrátt fyrir kreppuna og þá kaupmáttarrýrnun sem hefur orðið sökum gengislækkunar krónunnar og mikillar verðbólgu undanfarið eru laun hér enn há miðað við það sem gengur og gerist í mörgum öðrum ríkjum, eins og Austur-Evrópuríkjum en stærsti hópur innflytjenda hér á landi er pólskur. Atvinnuleysi í röðum erlendra ríkisborgara hér á landi er heldur ekki hátt í samanburði við atvinnuleysi í Evrópu almennt þrátt fyrir kreppuna.

Það er einnig svo að þrátt fyrir kreppuna er landsframleiðsla á mann hér enn nokkuð há, nálægt meðaltali Evrópusambandsríkjanna og mun hærri en í flestum ríkjum Austur-Evrópu. Minni landflótti erlendra ríkisborgara en vænst var endurspeglar þá kannski þann veruleika að þrátt fyrir kreppuna er efnahagsleg staða Íslands í samanburði við aðrar þjóðir enn nokkuð góð á margan hátt.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×