Viðskipti innlent

Áhrif kreppunnar vægari hér en flestir bjuggust við

Í heild virðast áhrif kreppunnar hér á landi enn sem komið er öllu vægari en flestir höfðu búist við. Samdráttur landsframleiðslunnar (VLF) á fyrstu 9 mánuðum ársins frá sama tímabili í fyrra var 6%, og virðist líklegast að samdráttur á árinu í heild verði nokkru minni en þau 8,5% sem Seðlabankinn spáði í síðasta mánuði.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að til samanburðar var samdrátturinn á sama tímabili 4,6% á evrusvæði, 5,2% í Bretlandi, 3,2% í Bandaríkjunum og 6,6% í Japan. Á komandi fjórðungum mun væntanlega draga jafnt og þétt úr samdrættinum á ársgrundvelli.

Á móti mun þó að sama skapi draga úr jákvæðu framlagi utanríkisviðskipta til hagvaxtar. Telur greiningin líklegast að botninum í þróun VLF verði náð á fyrri hluta næsta árs og að í kjölfarið muni hagkerfið taka að rétta hægt og bítandi úr kútnum.

Greining fjallar um tölur Hagstofunnar í morgun um landsframleiðsluna. Segir í Morgunkornunu að þótt enn magnist samdráttur í hagkerfinu séu vísbendingar um að botninn hvað það varðar kunni að vera skammt undan.

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu dróst VLF saman um 7,2% á þriðja ársfjórðungi frá sama tíma í fyrra. Er það mesti samdráttur milli ára sam mælst hefur undanfarinn áratug. Samdrátturinn á sér rót í ríflega 22% samdrætti þjóðarútgjalda á meðan framlag utanríkisviðskipta var jákvætt á tímabilinu.

Einkaneysla dróst saman um 13% á milli ára, samneysla um 1,4% og fjármunamyndun um ríflega 48%. Athygli vekur að fjárfesting bæði atvinnuvega sem í íbúðarhúsnæði skrapp saman um hátt á sjötta tug prósenta á milli ára á meðan fjármunamyndun hins opinbera minnkaði um fimmtung.

Bætist þessi samdráttur við þann þriðjungs samdrátt í atvinnuvegafjárfestingu og fjórðungs samdrátt í íbúðafjárfestingu sem mældist á 3. fjórðungi í fyrra, og þannig hefur atvinnuvegafjárfesting skroppið saman um ríflega 70% og íbúðafjárfesting um tæp 64% frá síðsumardögum árið 2007.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×