Viðskipti innlent

Hagstofan: Skuldir ríkisins 94,6% af landsframleiðslu

Heildarskuldir ríkissjóðs námu 1.419 milljörðum króna í lok þriðja ársfjórðungs eða sem nam 94,6% af áætlaðri landsframleiðslu ársins. Til samanburðar nam skuld ríkissjóðs 722 milljörðum króna á 3. ársfjórðungi 2008 eða sem svarar 48,9% af landsframleiðslu.

 

Út eru komin Hagtíðindi í efnisflokknum þjóðhagsreikningar um fjármál hins opinbera á 3. ársfjórðungi 2009. Í þeim ársfjórðungi var tekjuhalli hins opinbera nokkru minni en á öðrum ársfjórðungi eða 33 milljarðar króna samanborið við 41 milljarð króna.

 

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að sem hlutfall af landsframleiðslu 3. ársfjórðungs var tekjuhallinn 8,4% og sem hlutfall af tekjum hins opinbera 20,4%. Fyrstu níu mánuði ársins var tekjuhallinn rúmlega 100 milljarðar króna eða 6,6% af áætlaðri landsframleiðslu ársins, en á sama tíma 2008 var tekjuafkoman jákvæð um 6 milljarða króna, eða 0,4% af landsframleiðslu.

 

Tekjuhalli ríkissjóðs og almannatrygginga nam 28,5 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi 2009 samanborið við 8,3 milljarða króna tekjuhalla á sama ársfjórðungi árið áður. Á fyrstu 9 mánuðum ársins var tekjuafkoma þessara aðila neikvæð 85,7 milljarða króna samanborið við rúmlega 16 milljarða króna jákvæða afkomu á sama tímabili 2008.

 

Tekjuafkoma sveitarfélaganna var einnig neikvæð á 3. ársfjórðungi eða um 4,1 milljarð króna sem er svipuð afkoma og á sama tíma 2008. Fyrstu níu mánuði 2009 mældist tekjuhalli sveitarfélaganna um 14,5 milljarða króna samanborið við 10 milljarða króna tekjuhalla á sama tímabili 2008.

 

Hrein peningaleg eign ríkissjóðs, þ.e. peningalegar eignir umfram skuldir, var neikvæð um 441 milljarð króna í lok 3. ársfjórðungs 2009 samanborið við um 24 milljarða króna jákvæða eign á sama ársfjórðungi 2008.

 









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×