Innlent

Prófmál: Þarf að borga myntkörfulán á núverandi gengi

Karlmaður var dæmdur til þess að greiða eftirstöðvar bifreiðar sem hann var með á kaupleigu og fjármagnaði með myntkörfuláni hjá SP-fjármögnun árið 2007. Það var Björn Þorri Viktorsson sem varði manninn en um prófmál er að ræða en því hefur verið haldið fram að slík lán væru ólögleg. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Í dómnum segir að lántakandinn hafi vitað að um erlent lán hafi verið að ræða og er vitnað í samning þess eðlis að myntkörfulán voru áhættusamari en önnur lán og að maðurinn gerði sér fulla grein fyrir því.

Lánið sem um ræðir var blandað í japönskum jenum og svissneskum frönkum.

Í dómnum segir: „Gengisþróun hefur orðið flestum Íslendingum undanfarið ákaflega óhagfeld.

Á þeirri þróun getur SP-fjármögnun hf. hins vegar ekki borið ábyrgð. Þá er ósannað að SP-fjármögnun hf. hafi með einhverjum hætti nýtt sér hugsanlega fákunnáttu lántakanda um gjaldeyrismál eða stuðlað að því að honum hafi hugsanlega verið gefnar rangar eða villandi upplýsingar um þau efni eða gengistryggingu leigugreiðslu. Ekki eru því efni til að víkja frá þeirri meginreglu íslensks samningsréttar að samningar séu skuldbindandi fyrir aðila þeirra."

Í fáum orðum þá þarf lántakandinn að greiða myntkörfulán sitt upp á 4,3 milljónir króna. Það var upphaflega 3,6 milljónir.

Fyrir áhugasama má lesa dóminn hér.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×