Innlent

Segja ráðningu Davíðs ískyggilega

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins.
Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins.

Blaðamannafélög Noregs, Finnlands, Svíþjóðar og Danmerkur segjast hafa þungar áhyggjur af þróun íslenskra fjölmiðla í kjölfar bankahrunsins hér á landi og gagnrýna ráðningu Davíðs Oddssonar í ritstjórastól Morgunblaðsins.

Í fréttatilkynningu, sem félögin sendu frá sér sameiginlega og norska ríkisútvarpið NRK fjallar um, segir að fjöldi íslenskra blaðamanna með áralanga reynslu hafi verið rekinn fyrirvaralaust í þeim niðurskurði sem skollið hefur á íslenskum fyrirtækjum og stofnunum upp á síðkastið en slíkt sé veruleg aðför að frelsi fjölmiðla og tjáningarfrelsi í landinu. Fjölmiðlar landsins verði að hafa faglega aðstöðu til að fjalla um hrun íslenska efnahagskerfisins og njóta til þess fullkomins tjáningarfrelsis.

Þá segir í tilkynningunni að einkum sé ástandið ískyggilegt hjá elsta dagblaði landsins, Morgunblaðinu, þar sem eigendurnir hafi ráðið fyrrverandi forsætisráðherra sem ritstjóra, sem auk þess var seðlabankastjóri þegar bankahrunið varð, en hann sæti um þessar mundir rannsókn vegna þáttar síns í íslenska bankahruninu.

Að lokum lýsa blaðamannafélög Norðurlandanna áhyggjum sínum af Blaðamannafélagi Íslands en núverandi formaður félagsins auk formannsins þar á undan hafi misst störf sín á fjölmiðlum. Norræna blaðamannasambandið hyggst í samvinnu við Blaðamannafélag Íslands halda ráðstefnu hér á landi til að varpa ljósi á og ræða tjáningarfrelsi og ráðningar í stöður á norrænum fjölmiðlum.

Lesa má frétt NRK hér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×