Viðskipti innlent

Uppboð tollstjóra á bílum, útilegubúnaði og veiðigræjum

Bílar, útilegubúnaður og veiðigræjur er meðal varnings sem boðinn verður upp af Tollstjóranum í Reykjavík í hádeginu á laugardag, 28. nóvember 2009, í Vörumiðstöð Samskipa við Kjalarvog.

Í tilkynningu segir að um er að ræða ótollafgreiddar vörur þar sem aðflutningsgjöld eru fallin í gjalddaga og kennir þar margra grasa. Bílaáhugamenn ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi því auk bíla verða einnig boðnir upp bílavarahlutir, dekk og kerrur.

Þeir sem eru að byggja ættu líka að geta gert góð kaup því boðnir verða upp gluggar og gler, innréttingar, hurðir, húsbúnaður, timbur, skrúfur, boltar og prófílar. Einnig myndarammar, útilegubúnaður, veiðigræjur, skór og varahlutir í hjólhýsi, svo fátt eitt sé nefnt.

Sem fyrr segir fer uppboðið fram í Vörumiðstöð Samskipa, Kjalarvogi 7-15, hliði 33, og hefst kl. 12 á hádegi á laugardag. Greiða þarf varninginn við hamarshögg. Hvorki ávísanir né kreditkort eru tekin gild sem greiðsla, einungis debetkort og peningar.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×