Viðskipti innlent

Óheppilegt að bankafólk í þröngri fjárhagsstöðu ráðgefi um fjármál

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Það hafa alltaf gilt mjög strangar reglur um fjárhagsstöðu bankastarfsfólks segir bankastjóri Arion og það er óheppilegt að fólk í þröngri fjárhagsstöðu sé að ráðleggja viðskiptavinum um fjármál.

Allir starfsmenn bankans fengu í gær bréf þar sem fram kom að þeir sem nýti sér greiðsluaðlögun vegna fjárhagserfiðleika verði fluttir til í starfi eða sagt upp störfum.

Í bréfinu kom fram að tilflutningi í starfi eða uppsögn verði ekki beitt í þeim tilvikum þegar starfsfólk nýtir sér greiðslujöfnun, skuldaaðlögun eða þaðan af vægari skuldaúrræði. Þurfi starfsmaður hinsvegar að nýta sér róttækari leiðir líkt og greiðsluaðlögun verður viðkomandi fluttur til í starfi eða sagt upp.

Um innri reglur bankans er að ræða en þær hafa verið við lýði frá árinu 2004. Stjórn bankans hefur nú samþykkt að ofangreind útfærsla af þeim gildi til ársloka 2010. Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Arions, sagði í samtali við fréttastofu að það hefðu alltaf gilt mjög strangar reglur um fjárhagsstöðu bankastarfsfólks.

Með greiðsluaðlögun sé nánast verið að svipta fólk fjárræði þó það sé ekki gjaldþrota. Það sé óheppileg staða að starfsmenn í þröngri fjárhagsstöðu séu að ráðleggja viðskiptavinum um fjármál.

Finnur segir ennfremur að starfsmenn hafi að undanförnu kallað eftir upplýsingum um hvaða leiðir bankinn hyggist fara í þessum efnum. Hann efast um að margir starfsmenn bankans þurfi að nýta sér róttækari úrræði líkt og greiðsluaðlögun og því snerti þetta ekki marga innan bankans.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×