Innlent

Deilt um íþróttahús í Kópavogi

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Grunnskólabörn í Kópavogi þurfa að taka rútu langar leiðir til að komast í leikfimi á sama tíma og glæsilegt íþróttahús sem þeim er ætlað stendur autt vegna deilu Knattspyrnuakademíu Íslands og Kópavogsbæjar.

Grunnskólabörn úr Vatnsendaskóla í Kópavogi þurfa að taka rútu upp í íþóttamiðstöðina Versali til að sækja leikfimitíma á sama tíma og glæsilegt íþróttahús sem þeim er ætlað stendur autt.

Skýringuna á því má rekja til þess að í nóvember 2005 gerði Kópavogsbær undir forystu Gunnars I. Birgissonar þáverandi bæjarstjóra samning við Knattspyrnuakademíu Íslands um uppbyggingu á íþróttamannvirkjum í Kórnum.

Bærinn átti að reisa knattspyrnuhöll, sem hefur nú risið, en akademían, sem er í eigu nokkurra fyrrverandi atvinnumanna í knattspyrnu, átti að kosta byggingu íþróttahúss, líkamsræktarstöðvar og sundlaugar undir sína starfsemi. Kópavogsbær skuldbatt sig til að leigja tíma í íþróttahúsinu fyrir leikfimitíma grunnskólabarna í nærliggjandi hverfum.

Á síðasta ári stöðvuðust framkvæmdir við hið nýja íþróttahús þar sem laust fé akademíunnar var uppurið. Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri dó ekki ráðalaus og útvegaði Knattspyrnukademíunni lán hjá Landsbankanum til að ljúka við byggingu hússins.

Núna á Kópavogsbær kröfur á Knattaspyrnuakademíuna sem hlaupa á milljónum króna vegna leigu á knattspyrnuhöllinni. Jafnframt eru komnar upp deilur um leigu á íþróttahúsinu, en Knattspyrnuakademían heimtar hærri leigu en bærinn er tilbúinn að borga. Hið glæsilega íþróttahús stendur því autt á sama tíma og börnin í Vatnsendaskóla taka rútu í leikfimi.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×