Erlent

Umferðargenið er fundið

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Nú er orðið tilgangslaust að bölva glórulausum ökumönnum í umferðinni. Þeir geta nefnilega ekkert að þessu gert.

Litlir hæfileikar við stýrið eru nefnilega í genunum eins og svo margt annað. Spekingar hjá Kaliforníuháskóla lögðust í rannsóknir á þessu og fundu út að fólk með ákveðna uppröðun DNA-erfðaefnis, sem um það bil 30 prósent Bandaríkjamanna hafa, stóð sig almennt rúmlega 20 prósentum verr í verklegum ökuprófum en þeir sem ekki hafa þessa sérstöku uppröðun. Og það sem verra er, þessum hópi fer ekki fram í umferðinni eftir því sem hann öðlast meiri reynslu við stýrið, þvert á móti fer honum aftur.

Genið sem er öðruvísi í þessum hópi stjórnar ákveðnu próteini sem hefur áhrif á aðgerðaminni fólksins og virðist koma einkar augljóslega fram í aksturshæfileikum, sé eitthvað að marka rannóknina. Dr. Steven Cramer, sem stjórnar rannsókninni, segist velta því fyrir sér hve hátt hlutfall þeirra sem eru í órétti í umferðaróhöppum búi yfir þessari sérstöku erfðatilhögun.

Nú þýðir sem sagt ekkert lengur að vera að blikka þá sem aka á 50 á vinstri akrein, geta ekki með nokkru mótið bakkað í stæði og eru heila mínútu að koma sér af stað eftir að græna ljósið er komið. Þeir hafa einfaldlega ekki umferðargenið.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×