Innlent

Fjársvikarar nýta sér neyð Rebekku Maríu

Valur Grettisson skrifar
Þetta er merkið sem fólk á að fá í hendurnar styrkji það gott málefni Rebekku.
Þetta er merkið sem fólk á að fá í hendurnar styrkji það gott málefni Rebekku.

„Maður skilur hreinlega ekki hvað gengur að fólki," segir Pétur Sigurgunnarsson sem stendur fyrir söfnunarátakinu Hönd í hönd, þar sem safnað er pening fyrir Rebekku Maríu Jóhannesdóttur, 22 ára stúlku í Hafnarfirði, en borið hefur á því að óprúttnir betlarar hafa sníkt fé af fólki í nafni átaksins og svo hirt það sjálft.

Rebekka María vakti landsathygli þegar hún missti foreldra sína og nú vill hún ættleiða bræður sína. Pétur hóf þá söfnunarátakið en hefur orðið var við að óprúttnir misnoti góðmennsku almennings með þessum grófa hætti. Pétur bendir á að fólk eigi ekki að láta fé af hendi rakna vegna málefnisins nema þau fái merki því til sönnunar.

Lionsklúbburinn Ásbjörn í Hafnarfirði færði Rebekku Maríu Jóhannesdóttur 200 þúsund króna styrk.

„Ég veit að einhver afhendi pening og fékk ekkert merki í staðinn. Það er möguleiki á að einhverjir séu að labba í hús með merkin. Það er í lagi. En ef einhver er að safna fyrir Rebekku án þess að vera merktur og ekki með merki þá er það fólk sem er að sjá sér leik á borði að svíkja út fé," segir Pétur sem hefur áhyggjur af því að saklaust fólk verði fórnalömb fjársvik.

Hann bendir á að fólk á þeirra vegum afhendi alltaf þessi forlátu merki en mynd af því fylgir hér með fréttinni.

Fólk er beðið um að hafa samband við lögregluna verði fólk vart við óprúttna aðila sem reyna að safna fé án þess að sýna fram á tilefnið með slíku merki. Enda líklega fjársvikarar á ferð.

Pétur segir hinsvegar að söfnunin gangi vel. Fólk hefur tekið gríðarlega vel í átakið. Sjálfum langar Pétri að efna til landssöfnunar og vilji fólk leggja hönd á plóg þá getur það sent Pétri póst á netfangið hondihond@gmail.com.

„Það eru einhver merki eftir og ætla ég sjálfur að vera við Fjarðarkaup á föstudag og laugardag að selja merki," segir Pétur að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×