Ástþór Magnússon Wium er nú kominn í hóp þeirra sem eru ósáttir með Egil Helgason fjölmiðlamann á Rúv. Hann segir Egil vera fjölmiðlaskúrk sem gangi sífellt lengra í þeirri vissu að spilltir stjórnmála- og löggæslumenn muni ekki taka á lögbrotum hans. Þetta kemur fram í pistli sem Ástþór skrifar á heimasíðu sína í kvöld.
Hann spyr síðan hversvegna menntamálaráðherra taki ekki á ítrekuðum kvörtunum og kærum sem henni voru sendar í aðdraganda síðustu alþingiskosninga þegar Egill misnotaði aðstöðu sína gróflega með því að útiloka Lýðræðishreyfninguna frá þáttum sínum á Rúv meðan hann hampaði margítrekað aðstandendum og frambjóðendum Borgarahreyfingarinnar.
„Hversvegna tekur hún ekki á kvörtunum og kærum gagnvart fréttastofu RÚV sem margsinnis brutu núverandi lög í aðdraganda alþingiskosninga sem svo grófum hætti að varðar við hegningarlög. VG stelpuskjátan í ráðherrastól hefur engan trúverðugleika með nýtt frumvarp meðan hún leyfir drullusokkunum sem stjórna fréttastofu og helstu þáttum á RÚV að fótum troða lýðræðið," skrifar Ástþór.
Hann segir síðan að Katrín hafi ekki einu sinni svarað marg ítrekuðum kvörtunum Lýðræðishreyfingarinnar um brot RÚV á núverandi lögum.
„Til hvers að setja lög ef ekki þarf að fara eftir þeim? Nær væri að sparka í rassgatið á Lögreglustjóranum í Reykjavík með þeim skilaboðum að ekki sé viðunandi að stinga undir stól öllum kærum gegn RÚV fyrir brot á kosningalögum og hegningarlögunum í aðdraganda kosninga. Að setja lög sem ekki er ætlast til að farið sé eftir getur einungis stuðlað að enn frekara upplausnarástandi í þegar gerspilltu þjóðfélagi flokksdýranna."