Innlent

Partípinni fær skilorð og sekt

Andrés Pétur Rúnarsson  sektaður um tíu milljónir.
Andrés Pétur Rúnarsson sektaður um tíu milljónir.

Veitingamaðurinn Andrés Pétur Rúnarsson var dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag fyrir skattsvik. Hann er ennfremur dæmdur til þess að greiða tæpar tíu milljónir í sekt til ríkissjóðs.

Hann var framkvæmdastjóri einkahlutafélagsins Eignasölunnar Stuðlabergs en félaginu láðist meðal annars að skila inn virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabilanna frá janúar 2001 til ágúst 2002.

Þá stóð félagið ekki í skilum á skattframtölum félagsins gjaldárin 2002 og 2003, vegna tekjuáranna 2001 og 2002, og þannig ekki talið fram til skatttekjur sem skattskyldar eru.

Brot ákærða gegn lögum um virðisaukaskatt, gegn lögum um bókhald og lögum tekjuskatt teljast í heild vera stórfelld.

Þá þykja brotin að mati héraðsdóms sýna ófyrirleitinn brotahug og það er einnig til þess að þyngja refsingu Andrésar að hann var löggiltur fasteignasali þegar hann framdi þau.

Ákæran gegn Andrési var í þremur liðum. Hann var alfarið sýknaður í einum lið og hluta af hinum tveimur liðunum.

Refsing hans þykir því vera hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði og fellur hún niður haldi hann almennt skilorð næstu tvö árin. Hann þarf að greiða 9,6 milljónir í sekt, sem er þreföld upphæðin sem hann var dæmdur fyrir að svíkja út. Greiðist hún ekki innan fjögurra vikna kemur 75 daga fangelsi í staðinn.













Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×