Skoðun

Icesave er 15 prósent af vandanum

Stefán Ólafsson skrifar

Icesave-málið hefur fengið allt of stórt hlutverk í umræðunni miðað við hlut þess í vanda okkar. Kostnaðurinn vegna Icesave-ábyrgðarinnar er nálægt 15 prósent af þeim byrðum sem eru að falla á ríkissjóð, eða nærri 300 milljarðar nettó af um 1700. Þessi skuld kemur til greiðslu eftir sjö ár og verður þá greidd upp á minnst átta árum, á hagstæðara gengi en nú er og föstum vöxtum. Hún gæti því hæglega orðið minna en þessi 15 prósent sem nú teljast.

Eigum við ekki að fara að tala um aðalatriðin, hin 85 prósent vandans sem eru að leggjast á þjóðina núna? Látum aukaatriðin vera aukaatriði, þó þau séu alvarleg og svívirðilegt að Landsbankamenn skyldu leggja þetta á þjóðina, með leyfi Seðlabanka og Fjármálaeftirlits.

Að fella ríkisstjórn sem hefur alla burði til að koma þjóðinni út úr vandanum, vegna ágreinings um málsmeðferð Icesave-samninganna, er að gefa málinu meira vægi en réttlætanlegt er.

Þjóðin veit hvað gerðist hér. Hún veit að það verða auknar byrðar og tímabundnir erfiðleikar. Þjóðin vill aðrar áherslur en voru fyrir hrun, meiri skandinavískar jafnaðaráherslur og minni bandaríska frjálshyggjuöfga í þágu auðmanna. Stjórnarflokkarnir standa fyrir þá leið og þeir eiga að klára hana. Þeir þurfa að standa af sér tveggja ára erfiðleikatímabil og síðan fer allt upp á við aftur. Þá mun þjóðin kunna þeim þakkir sem unnu óvenju erfitt verk. Þá verður Ísland heilbrigðara í framhaldinu en verið hefur.

Slíðra þarf sverð. Ögmundur þarf að koma aftur til mikilvægs hlutverks, t.d. eftir uppstokkun í Stjórnarráðinu. Hans er þörf.

Því fyrr sem við komumst áfram með endurreisnina því fyrr er hægt að senda AGS úr landi og þeim mun minni skuldum þurfum við að safna. Við eigum að taka fast á vandanum strax, þó það verði sársaukafullt. Þá komumst við fyrr og betur upp úr feninu.

Einbeitum okkur að aðalatriðum. Mikilvæg úrræði ríkisstjórnarinnar bíða framkvæmdar. Komum okkur áfram. Það er vel hægt.

Höfundur er prófessor við Háskóla Íslands.











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×