Innlent

Formaður BÍ fagnar uppsögn sinni

„Ég er glöð að vera í þeim góða hópi fólks sem þarf að yfirgefa Morgunblaðið við þessar aðstæður sem nú eru uppi," segir formaður Blaðamannafélags Íslands, Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, en henni var sagt upp á Morgunblaðinu í dag auk fjölda starfsmanna eins og Vísir greindi frá í morgun.

„Sjálf hafði ég reyndar ítrekað óskað eftir skýringum á hvert stefndi gagnvart mér enda fannst mér anda köldu í minn garð," segir Þóra Kristín um aðdraganda uppsagnarinnar.

Þóra Kristín mun þó sakna Morgunblaðsins enda góður vinnustaður að hennar sögn. „Þar störfuðu margir frábærir blaðamenn í áratugi og þarna fer forgörðum samanlagt mörg hundruð ára reynsla," segir hún um uppsagnirnar sem hófust í morgun. Talið er að um fjörutíu manns verði sagt upp hjá fyrirtækinu öllu vegna skipulagsbreytinga.

„Það er virkilega orðin spurning hvort blaðamennska á Íslandi sé mönnum bjóðandi," segir Þóra Kristín.

Hávær orðrómur er uppi um að Davíð Oddsson, fyrrum forsætisráðherra, og Haraldur Johannessen, ritstjóri Viðskiptablaðsins, taki við sem ritstjórar blaðsins.

Og Þóra vandar ekki kveðjurnar til eiganda Árvakurs:

„Við eigendur Morgunblaðsins vil ég segja það að ef flugufréttir eru réttar um að til standi að breyta blaðinu í þröngt flokksblað, eins konar Varðturn sérhagsmuna ákveðinnar deildar innan Sjálfstæðisflokksins, þá var þeim þremur milljörðum sem íslenskur almenningur afskrifaði, til að núverandi eigendur gætu eignast blaðið, afar illa varið."

Haldinn verður starfsmannafundur hjá Árvakri klukkan hálf fimm í dag. Þá mun framtíð Morgunblaðsins hugsanlega skýrast.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×