Innlent

Óskar: Steingrímur hefur sjálfur opnað fyrir erlent eignarhald

Óskar Bergsson.
Óskar Bergsson.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hefur sjálfur opnað fyrir erlent eignarhald á íslenskum orkufyrirtækjum með því að skrifa undir samkomulag við erlenda kröfuhafa Íslandsbanka. Þetta er mat borgarfulltrúa Framsóknarflokksins. Bankinn á stóran hlut í HS Orku í gegnum Geysir Green Energy.

Vinstri grænir hafa viljað koma í veg fyrir kaup Magma Energy á hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku. Að þeirra mati er erlent eignarhald á íslenskum orkufyrirtækjum óæskilegt.

Á sunnudaginn skrifaði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, undir samkomulag við erlenda kröfuhafa Íslandsbanka þar sem opnað er fyrir þann möguleika að kröfuhafarnir eignis 95 prósent í bankanum.

Íslandsbanki er einn af stærstu lánadrottnum Atorku, sem nú er í greiðslustöðvun, en félagið á þriðjungs hlut í HS orku í gegnum Geysir Green Energy.

Óskar Bergsson, borgarfulltrúi framsóknarflokks og formaður borgarráðs Reykjavíkurborgar, segir að með þessu hafi ráðherra í raun afhent erlendum kröfuhöfum íslenskt orkufyrirtæki á silfurfati. Þetta sé í fullkomnu ósamræmi við fyrri yfirlýsingar ráðherra. Óskar segir að ef raunverulegur vilji hafi verið hjá ráðherranum að halda orkufyrirtækjum eftir við uppgjörið á gömlu bönkunum þá hefði það verið honum í lófa lagið. „En hann kýs að láta þessi orkufyrirtæki fara með bankanum. Ég held að hann verið að svara fyrir það," segir Óskar.

Samningur Orkuveitur Reykjavíkur og Magma Energy verður tekinn fyrir á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í dag. Samtök sem kalla sig Vaktin hafa boðað til mótmæla á áhorfendapöllum í ráðhúsi Reykjavíkur.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×