Innlent

Vill skýr svör ríkisins og Alcoa

Næsta álver? Sveitarstjórnarmenn segja að tilraunaboranir við Þeistareyki hafi tafist vegna kröfu um sameiginlegt umhverfismat. Í vor liggi fyrir hvort nægileg orka sé á svæðinu til að knýja álverið sem Alcoa vill reisa á Bakka.
Næsta álver? Sveitarstjórnarmenn segja að tilraunaboranir við Þeistareyki hafi tafist vegna kröfu um sameiginlegt umhverfismat. Í vor liggi fyrir hvort nægileg orka sé á svæðinu til að knýja álverið sem Alcoa vill reisa á Bakka.

Sveitarstjóri Norðurþings hefur óskað eftir fundi með iðnaðarráðherra til að knýja á um að viljayfirlýsing um byggingu álvers á Bakka við Húsavík verði framlengd.

Yfirlýsing sem sveitarfélagið, ríkið og Alcoa undirrituðu rennur út um mánaðamótin.

Bergur Elías Ágústsson sveitarstjóri segir að ákvörðun fyrrverandi umhverfisráðherra um sameiginlegt umhverfismat hafi tafið fyrir málinu. „Við höfum ekki getað klárað þær nauðsynlegu rannsóknir sem stóð til að gera,“ segir Bergur Elías.

Hann vill að yfirlýsingin verði framlengd til næsta vors. Þá verði umhverfismati loks lokið og fyrir liggi hve mikil orka sé til ráðstöfunar.

Sveitarstjórnin hefur ekki fjallað um málið en Friðrik Sigurðsson, sem situr í sveitarstjórninni fyrir Sjálfstæðisflokkinn, segir að mestu skipti að fá stöðu málsins á hreint.

„Ég vil taka upplýsta ákvörðun,“ segir Friðrik, sem telur nauðsynlegt að fá skýr svör um raunverulegan stuðning ríkisins og Alcoa við þetta verkefni.

„Það er mjög mikilvægt sálfræðilegt atriði fyrir íbúa á sveitarfélaginu,“ segir Friðrik. Hann segir að ekki sé nóg að framlengja yfirlýsinguna heldur þurfi að koma fram hvenær framkvæmdir munu hefjast, finnist nægileg orka við tilraunaboranir á Þeistareykjasvæðinu.- pg



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×