Innlent

Forsetinn á að staðfesta Icesave

Heimir Már Pétursson skrifar
Bjarni vill að forsetinn staðfesti ríkisábyrgðina á Icesave samningunum. Mynd/ Anton Brink.
Bjarni vill að forsetinn staðfesti ríkisábyrgðina á Icesave samningunum. Mynd/ Anton Brink.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins vill að forseti Íslands staðfesti lög um ríkisábyrgð vegna Icesave og telur að forsetinn eigi reyndar aldrei að ganga gegn vilja Alþingis.

Nú er verið að safna undirskriftum á vefnum kjósa punktur is við áskorun til Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands um að staðfesta ekki nýsamþykkt lög Alþingis um ríkisábyrgð vegna Icesave samninganna við Breta og Hollendinga.

Í gær höfðu á sjöunda þúsund manns skrifað undir áskorunina sem verður afhent forsetanum á morgun. Ólafur Ragnar er eini forseti lýðveldisins sem synjað hefur lögum staðfestingar, en það gerðist þegar hann neitaði að staðfesta fjölmiðlalögin árið 2004. Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins segir að forsetinn eigi að staðfesta lögin.

„Ég er þeirrar skoðunar að hann eigi ekki að beita þessari heimild og er reyndar þeirrar skoðunar að í það eina skipti sem henni hefur verið beitt hafi ekki verið réttur grundvöllur fyrir þeirri beitingu," segir Bjarni. Hann sé á móti því að forsetinn beiti synjunarvaldinu.

„Mér finnst það eiga sérstaklega við núna vegna þess að hér er meirihlutaríkisstjórn sem hefur klárað málið og það á ekki að fara gegn þinginu," segir Bjarni Benediktsson.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×