Innlent

Geta ekki mætt í skóla vegna fátæktar foreldra

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Þórhallur Heimisson, prestur við Hafnarfjarðarkirkju.
Þórhallur Heimisson, prestur við Hafnarfjarðarkirkju. Mynd/Stefán

„Það sem ýtti mér af stað er að foreldrar hafa verið að hringja í mig út af börnum sem mættu ekki í skólann fyrsta daginn, því þau hafa ekki getað keypt bækur," segir Þórhallur Heimisson, prestur við Hafnarfjarðarkirkju, í samtali við fréttastofu.

Hann skrifaði færslu í vefdagbók sína í gær þar sem hann lýsir erfiðum símtölum frá fólki sem getur ekki látið börnin sín byrja í skóla með haustinu, því ekki er til peningur til að kaupa námsbækur, skólavörur og greiða innritunargjöld. Þórhallur segir einkum um nemendur við framhaldsskóla að ræða.

Aðspurður hvort hann telji hættu á að börn flosni hreinlega upp úr námi vegna fátæktar svarar Þórhallur:

„Ég spyr - ef þú getur ekki mætt í skólann á mánudaginn því þú átt ekki bækur, hvað ætlarðu þá að gera?"

Þórhallur segist hafa heyrt frá fólki sem standi frammi fyrir algjöru úrræðaleysi fyrir morgundaginn.

Hann segir marga foreldra vera með fleiri en eitt barn á sínu framfæri sem þurfi að fæða og klæða á sama tíma og verðlag hækkar.

Þórhallur bendir á að fólk geti leitað til Hjálparstarfs kirkjunnar og félagsþjónustunnar um styrki, en þeir hrökkvi skammt miðað við hvað kostnaðurinn við að hefja nám er mikill. Hann kallar eftir aðgerðum og biðlar til menntamálaráðherra í færslunni.

„Ég veit ekki hvað þarf að gera, en ég veit að það þarf að gera eitthvað."

Færslu Þórhalls má lesa hér.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×