Innlent

Íslenskur öfgahópur veldur nýsköpunarfyrirtæki milljóna tjóni

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Björn Lárus Örvar, framkvæmdastjóri ORF Líftækni.
Björn Lárus Örvar, framkvæmdastjóri ORF Líftækni. Mynd/Vilhelm
„Við erum náttúrulega slegin yfir þessu," segir Björn Lárus Örvar, framkvæmdastjóri ORF Líftækni, en allt bygg í reit ORF í Gunnarsholti hefur verið eyðilagt. Um skemmdarverk er að ræða, en verknaðurinn var unninn í nótt eða í morgun.

Byggið sem var eyðilagt er erfðabreytt og er í tilraunaræktun hjá ORF.

Í tilkynningu frá ORF kemur fram að ræktunin hafi verið liður í rannsóknar- og þróunarstarfsemi fyrirtækisins sem miðar að því að framleiða verðmætar afurðir fyrir læknisfræðilegar rannsóknir, snyrtivöruiðnaðinn og lyfjaþróun. Ljóst er að fyrirtækið mun ekki fá uppskeru úr tilraunareitnum í haust líkt og stefnt var að.

Fréttastofu barst nafnlaus tölvupóstur frá aðilum sem kalla sig Illgresi og lýsa sig ábyrg af verknaðinum. Hópurinn segir tilraunir ORF með ræktun á erfðabreyttu lyfjabyggi ryðja brautina fyrir ræktun erfðabreyttra lífvera almennt á Íslandi, sem hópurinn telur hættuleg umhverfinu og dýrum.

Þá segir Illgresi skort á lýðræðislegri umræðu um málið og setja fram ásakanir um spillingu við rannsóknir og leyfisveitingar vegna ræktunarinnar.

„Eftirlitsaðilar okkar jöfnuðu á dögunum tilraunareit Orfs í

Gunnarsholti við jörðu. Héðan í frá munu erfðabreytingar ekki fara

fram á íslandi án okkar íhlutunar," segir í nafnlausta póstinum frá Illgresi.

„Ég skil hreinlega ekki hvað þeir eiga við þarna. Þetta fékk mjög góða og faglega umfjöllun hjá Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun. Ef það er ekki hægt að treysta okkar færasta vísindafólki í þessu þá veit ég ekki hvert er hægt að leita," segir Björn sem vísar gagnrýni Illgresis á bug.

Hann segir tjónið mikið fyrir fyrirtækið og líklegast hlaupa á milljónum, enda undirbúningur tilraunarinnar mikill og efniviðurinn dýr.

„Fyrir lítið fyrirtæki eins og okkar sem er að berjast við erfiðar aðstæður í nýsköpun er þetta náttúrulega ekki gott mál."

Skemmdarverkið hefur verið kært til lögreglu.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×